Hildur Harðardóttir, verkefnisstjóri á sviði Samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun, var kjörin formaður Kvenna í orkumálum á aðalfundi félagsins þann 5. maí. Hildur tekur við af Hörpu Pétursdóttur, stofnanda félagsins og formanni frá árinu 2016.

„Það eru spennandi tímar framundan í orkumálum og mikilvægt að konur hafi sterka rödd. Ég hlakka til að vinna með góðum hópi kvenna í KíO að framgangi félagsins og styrkja tengsl og þekkingu kvenna í geiranum,“ segir Hildur í tilkynningu.

Lovísa Árnadóttir hjá Samorku og Svandís Hlín Karlsdóttir hjá Landsneti voru endurkjörnar í stjórn til næstu tveggja ára. Sex nýjar stjórnarkonur taka sæti, þær Ásgerður K. Sigurðardóttir hjá Landsvirkjun, Birna Bragadóttir hjá Orkuveitunni, Dagný Ósk Ragnarsdóttir hjá Landsvirkjun og Silja Rán Steinberg Sigurðardóttir hjá RARIK. Varamenn eru Amel Barich hjá GEORG og Ásdís Benediktsdóttir hjá ÍSOR.

"Það hafa orðið verulegar hreyfingar í jafnréttismálum í orkugeiranum á síðustu árum. Ég tel að Konur í orkumálum hafi spilað lykilhlutverk þarna og ýtt kröftulega undir þá þróun. Ég er því afar stolt af okkar vinnu og framlagi til þessa mikilvæga málefnis síðustu sex árin og hlakka til að fylgjast nú með félaginu vaxa enn frekar,“ segir Harpa Pétursdóttir, fráfarandi formaður Kío.

Konur í orkumálum er félag þeirra sem starfa í orku- og veitugeiranum á Íslandi eða hafa áhuga á honum. Félagið er opið öllum sem telja tilgang félagsins sig varða og vilja stuðla að framgangi félagsins. ​Aðildin er öllum opin enda eru það hagsmunir allra að jafna hlutfall kynjanna í geiranum.​​​ Nánari upplýsingar má sjá á https://konuriorkumalum.is/

Nýr og fráfarandi formaður félagsins.
Mynd/Aðsend