Launavísitalan hækkaði um 0,3 prósent milli október og nóvember samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,5 prósent, sem er áþekkt og verið hefur síðustu mánuði.

Hækkun launavísitölu hefur verið stöðug og mikil.

Launavísitalan hefur hækkað nokkuð jafnt og þétt frá því í janúar þegar síðustu áfangahækkanir kjarasamninga komu til framkvæmda. Á fyrstu ellefu mánuðum ársins hefur hún hækkað um samtals 7,3 prósent. Kjarasamningsbundnar hækkanir verða næst í janúar 2022. Árshækkunartaktur launa hefur verið vel yfir 7 prósentum allt frá því í nóvember 2020 sem er hærra en hefur verið frá miðju ári 2017.

Kaupmáttur hefur haldist nokkuð stöðugur síðustu 12 mánuði en af línuritinu má sjá að síðasta áratuginn hafa laun hækkað um rösklega 90 prósent að nafnvirði en kaupmáttur einungis um helming þess.

Kaupmáttur nokkuð stöðugur þrátt fyrir mikla verðbólgu

Verðbólga í nóvember mældist 4,8 prósent en árshækkun launavísitölunnar um 7,5 prósent. Kaupmáttur launa jókst því um 2,6 prósent á árinu þrátt fyrir mikla verðbólgu. Kaupmáttaraukning launa er því áfram nokkuð stöðug og mikil í sögulegu samhengi. Kaupmáttarvísitalan hefur lækkað eilítið frá því í janúar og var kaupmáttur launa í nóvember 1,1 prósent lægri en í janúar, en þá var kaupmáttur í sögulegu hámarki.

Síðasta árið hafa laun hjá hinu opinbera hækkað mun meira en laun á almennum vinnumarkaði.

Hið opinbera leiðir launahækkanir

Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum milli 3. ársfjórðunga árin 2020 og 2021 kemur í ljós að laun á almennum markaði hækkuðu um 6,3 prósent á þessu tímabili en um 11,5 prósent hjá hinu opinbera. Hækkunin nemur 9,9 prósentum hjá ríkinu og 13,3 prósentum hjá sveitarfélögum.

Opinberi markaðurinn hefur þannig verið leiðandi í launabreytingum á tímabilinu. Launastig er almennt lægra á opinbera markaðnum en á þeim almenna og á það sérstaklega við um sveitarfélögin. Því er eðlilegt að kjarasamningsbundin krónutöluhækkun launa skili sér í hlutfallslega meiri hækkunum þar vegna áfangahækkana.

Stytting vinnutíma hefur mismunandi áhrif

Á þessu ári hefur hluti launahækkunar hjá hinu opinbera komið til vegna vinnutímastyttingar, líkt og varð á almenna markaðnum í fyrra. Áhrif styttingar vinnutíma eru hins vegar ekki metin inn í launavísitölu nema þau séu talin ígildi launahækkana, þegar greiddum stundum fækkar og laun haldast óbreytt.

Frá því í mars 2019, þegar Lífskjarasamningurinn var gerður, og fram í september 2021 hefur launavísitalan hækkað um 18,4 prósent. Þar af eru áhrif vinnutímastyttingar 1,8 prósentustig og áhrif annarra breytinga 16,6 prósentustig. Aðrar breytingar eru fyrst og fremst áfangahækkanir kjarasamninga, en einnig breytingar á aukagreiðslum eins og bónusum og vaktaálagi, þar með talið árstíðabundnum aukagreiðslum. Hækkanir umfram hækkanir vegna kjarasamninga eru gjarnan skilgreindar sem launaskrið.

Stytting vinnutíma hefur haft mun meiri áhrif til launahækkunar hjá hinu opinbera en á almennum vinnumarkaði.

Meiri hækkanir vegna styttingar vinnutíma á opinbera markaðnum

Áhrif vinnutímabreytinga á launavísitölu hafa verið mun meiri á opinbera markaðnum en þeim almenna og sama gildir um launahækkanir vegna kjarasamninga og launaskriðs. Þannig eru áhrif vinnutímabreytinga rúmlega þrefalt meiri hjá starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga á þessu tímabili. Þegar horft er til þess að almennt var samið var um 45 mínútna styttingu á vikulegum vinnutíma á almenna markaðnum en um 65 mínútur á þeim opinbera þarf þetta ekki að koma á óvart. Þessu til viðbótar styttist vinnutími vaktavinnufólks á opinbera markaðnum.

Þróun launavísitölu nú ólík fyrri kreppum

Stöðug hækkun launavísitölunnar á árinu er athyglisverð í ljósi hagsveiflunnar og er þróunin ólík því sem verið hefur í fyrri kreppum.