Microsoft hefur tilnefnt íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Annata í úrslitahóp um val á samstarfsaðila ársins á sviði hugbúnaðar fyrir bíla- og tækjaiðnað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Annata.

„Það er okkur mikill heiður að vera valin í úrslitahóp Microsoft á samstarfsaðila ársins á sviði hugbúnaðar fyrir bíla- og tækjaiðnað. Fyrir tveimur árum vorum við valin alþjóðlegur samstarfsaðili ársins af Microsoft og það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með þeirri hröðu þróun sem hefur orðið frá þeim tíma.

Þessi hraða framþróun hefur átt sér stað vegna þeirrar pressu sem Covid-19 setti á stafræna umbreytingu fyrirtækja. Lausnir Annata hafa stutt við þróun nýrra viðskiptamódela sem byggja á sveigjanleika og sem gera fyrirtæki betur í stakk búin að takast á við áskoranir eins og Covid-19“ segir Jóhann Jónsson, forstjóri Annata.

Annata var valið úr hópi þúsunda samstarfsaðila Microsoft, sem margir hverjir eru á meðal stærstu fyrirtækja heims.

„Það er okkur mikill heiður að veita samstarfsaðilum okkar þessa viðurkenningu. Þau fyrirtæki sem eru tilnefnd sem samstarfsaðilar ársins af Microsoft hafa þróað lausnir sem eru á heimsmælikvarða“ sagði Rodney Clark, aðstoðarforstjóri Global Partner Solutions hjá Microsoft.

Annata er alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi. Frá stofnun fyrirtækisins hefur það lagt áherslu á þróun á lausnum byggðum á Microsoft Dynamics sem síðan hafa fest sig í sessi á alþjóðamarkaði innan bíla- og tækjaiðnaðarins.