Hersir Sigurgeirsson, dósent í fjármálum við Háskóla Íslands og bankaráðsmaður í Landsbankanum, hefur gefið kost á sér til setu í stjórn Eikar fasteignafélags. Fjórir af fimm núverandi stjórnarmönnum Eikar eru í framboði en einn dró framboð sitt til baka.

Stjórnarmenn Eikar sem gefa áfram kost á sér eru Arna Harðardóttir, Bjarni Kristján Þorvarðarsson, Eyjólfur Árni Rafnsson og Guðrún Bergsteinsdóttir. Er því sjálfkjörið í fimm manna stjórn félagsins. Agla Elísabet Hendriksdóttir, sem hefur setið í stjórn fasteignafélagsins frá árinu 2013, dró framboð sitt til baka eftir að tilnefningarnefnd skilaði niðurstöðum sínum.

Hersir var kjörinn í bankaráð Landsbankans í apríl 2016 og er formaður áhættunefndar. Hann er dósent í fjármálum við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og sjálfstætt starfandi ráðgjafi. Hersir var sérfræðingur hjá Kaupþingi banka á árunum 2003-2006, m.a. í áhættustýringu og eigin viðskiptum.

hersir.jpg

Á árunum 2006-2010 gegndi hann stöðu lektors í fjármálum við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Hann starfaði um árabil fyrir Saga Capital á Akureyri, fyrst sem framkvæmdastjóri áhættustýringar og rekstrar 2006-2011 og síðar sem forstjóri 2011-2012.

Einnig starfaði Hersir sem ráðgjafi hjá Alþjóðabankanum 2013-2015. Hann var stjórnarformaður hjá fjármálafyrirtækinu T Plús hf., Akureyri, 2009-2014, stjórnarformaður hjá Straumi sjóðum hf., Reykjavík, 2014-2015 og framkvæmdastjóri Straums sjóða 2015-2016.

Í skýrslu tilnefninganefndar fyrir aðalfund Eikar, sem verður haldinn 10. júní, var mælt gegn því að breytingar yrðu á stjórn félagsins. „Er í því sambandi meðal annars litið til þess að efnahagsaðstæðum og öðru ytra umhverfi félagsins er þannig háttað, nú og í fyrirsjáanlegri framtíð, að stöðugleiki vegur þungt,“ sagði í skýrslu nefndarinnar.

Eins og greint var frá í Markaðinum í síðustu viku vildu Brimgarðar, stærsti hluthafi Eikar, sjá endurnýjun í stjórn félagsins á aðalfundinum. Er fjárfestingafélagið sagt telja að þörf sé á meiri sérfræðiþekkingu á skuldabréfamarkaði í stjórn Eikar, þar sem rekstur félagsins byggi á góðri fjármögnun. Stjórn Eikar barst í síðustu viku krafa frá Brimgörðum um að beitt yrði margfeldiskosningu við stjórnarkjörið.