Herjólfur III er nú kominn á sölu og er verðhugmynd fyrir gömlu Vestmannaeyjaferjuna 4,5 milljónir evra eða um 600 milljónir íslenskra króna samkvæmt sölusíðu J Gran & Co AS.

Greint er frá þessum á fréttavef Vestmannaeyja, Eyjafrétta.

Herjólfur III hefur verið í eigu Vegagerðarinnar, sem fjárfesti í nýjum Herjólfi, rafmagnsferju sem var smíðuð í Póllandi sem var afhent Íslendingum í júní árið 2019.

Gamli Herjólfur verður nýttur til að ferja gesti yfir til Vestmannaeyja fyrir Þjóðhátíð. Herjólfur ohf. leigir Herjólf III og er miðasala í höndum Þjóðhátíðarnefndar.