Héraðssaksóknari hefur tekið á móti erindi Umhverfisstofnunar vegna tveggja gámaskipa Eimskipafélagsins sem rifin voru í umdeildum skipakirkjugarði á Indlandi.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið. Málið er komið í hefðbundinn farveg að sögn Ólafs. Við upphaf slíkra erinda er byrjað á að greina málið og er síðan tekin ákvörðun hvort hafin verði formleg rannsókn.

Umhverfisstofnun upplýsti Eimskipafélagið að stofnunin hafi í vikunni kært félagið til embættis héraðssaksóknara sem lögaðila vegna meintra brota á lögum um meðhöndlun úrgangs.

Eimskip hafnar ásökunum

Eimskip sendi frá sér tilkynning í Kauphöllina í dag vegna umfjöllunar Kveiks og kæru Umhverfisstofnunar. Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs sagði félagi hvergi hafa komið nálægt þeirri ákvörðun né með hvaða hætti skipin tvö voru endurunnin.

„Eimskip hefur aflað upplýsinga frá Umhverfisstofnun sem hefur nú upplýst félagið að stofnunin hafi í vikunni kært félagið til embættis héraðssaksóknara sem lögaðila vegna meintra brota á lögum um meðhöndlun úrgangs. Eimskip hafði engar upplýsingar um þá kæru fyrr en eftir samtal við Umhverfisstofnun fyrr í dag og stofnunin aflaði engra gagna frá Eimskip vegna málsins. Eimskip hafnar þessum ásökunum enda fylgdi félagið í einu og öllu lögum og reglum í þessu söluferli.“