Skúli Gunn­ar Sig­fús­son, eða Skúli í Subway, hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir að milli­færa fjár­muni af banka­reikn­ing­um fé­lags­ins EK1923 ehf. og rýra efna­hag þess í aðdrag­anda þess að fé­lagið var úr­sk­urðað gjaldþrota.

Einnig hafa verið ákærðir tveir aðrir stjórnendur félagsins, þeir Guðmund­ur Hjalta­son, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri Sjö­stjörn­unn­ar og Guðmund­ur Sig­urðsson, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri Stjörn­unn­ar, ákærðir. Bæði fé­lög­in eru í eigu Skúla. Greint er frá málinu á mbl.is.

„Ég hef ekki ákæru héraðssaksóknara undir höndum, en eins og greint er frá henni í fjölmiðlum virðist ákæran vera nokkurn veginn í samræmi við það sem ég sem skiptastjóri og kröfuhafar í þrotabúinu lögðum upp með þegar kæra var send héraðssaksóknara,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður þrotabús EK1923, í samtali við Fréttablaðið.

Fram kemur í frétt mbl.is að ákæran snúi annars vegar að tveimur millifærslur og hins vegar eitt framsal á kröfu sem eiga að hafa átt sér stað frá janúar árið 2016 þar til í ágúst sama ár. Gerð var krafa um gjaldþrotaskipti félagsins í maí árið 2016 og úrskurðað um gjaldþrotið í september sama ár. Í ákærunni, sem mbl.is segist hafa undir höndum, segir að „millifærslurnar hafi verið til þess fallnar að rýra efnahag félagsins“.

Fyrri millifærslan var 21,3 milljóna millifærsla inn á reikning Sjö­stjörn­unn­ar í mars 2016 og sú seinni greiðslur frá EK1923 þann 11. Ágúst 2016 til tveggja er­lendra birgja, en kröf­urn­ar voru gjald­falln­ar.

Hvað varðar framsal á kröfu sem ákært er fyrir snýst málið um kröfu á hend­ur rík­inu sem EK1923 átti vegna út­hlut­un­ar á toll­kvóta, en var framseld til Stjörn­unn­ar. Heild­ar­upp­hæð kröf­unn­ar voru 24,6 millj­ón­ir, auk vaxta.