Hvor aðili ber sinn málskostnað, sem gefur til kynna að kröfur Frigusar II hafi ekki verið tilhæfulausar þótt dómurinn féllist ekki á að ríkinu og Lindarhvoli beri að greiða bætur vegna söluferlisins.

Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Frigusar II var viðstaddur dómsuppkvaðningu en Steinar Þór Guðgeirsson, lögmaður Lindarhvols og ríkisins og sá sem var „allt í öllu“ hjá Lindarhvoli samkvæmt vitnisburði Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda ummálefni Lindarhvols, fyrir héraðsdómi í janúar, var ekki viðstaddur.

Sigurður Valtýsson, forsvarsmaður Frigusar II segir dóminn vera mikil vonbrigði. „Þau gögn og vitnisburðir sem komu fram við aðalmeðferð málsins sýndu alvarlegar brotalamir í tengslum við söluna á eignarhlut ríkisins hjá Lindarhvoli. Jafnræði var ekkert, gagnsæið hverfandi og leyndarhyggja ríkjandi, þvert á lög og siðareglur félagsins.

Það eru mikil vonbrigði að dómarar málsins litu framhjá þessum stóru ágöllum. Við munum fara yfir dóminn og taka ákvörðun í framhaldinu um áfrýjun til Landsréttar.“

Greinargerð Sigurðar Þórðarsonar um starfsemi Lindarhvols er enn læst ofan í skúffi Birgis Ármannssonar, forseta Alþingis og kom ekki til skoðunar fyrir dómi. Sigurður Valtýsson segir það óþolandi og ólíðandi að gögn sem eigi að vera opinber skuli vera falin í þessu dómsmáli, ríkinu til hagsbóta.

Ljóst er að þingmeirihluti er fyrir því að greinargerð Sigurðar Þórðarsonar verði gerð opinber og væntanlega styttist í að hún komi fram í dagsljósið, en æ erfiðara er fyrir Birgi Ármannsson og Bjarna Benediktsson að halda henni frá augum þingmanna og almennings.

Fréttin hefur verið uppfærð.