1. sæti

Sam­kvæmt dóm­nefnd Markaðarins, sem er skipuð for­stjórum og sér­fræðingum úr við­skipta­lífinu, sýndi Orri Hauks­son, við­skipta­maður ársins, fá­dæma seiglu þegar á móti blés og allt leit út fyrir að risa­sala á inn­viða­fyrir­tækinu Mílu væri að renna út í sandinn.

Sam­keppnis­eftir­litið gerði tals­verða fyrir­vara við söluna sem gerði það að verkum að um tíma leit út fyrir að við­skiptin væru að ganga til baka.

„Af­rek að ná svo góðum samningi og þraut­seigja að koma sölunni í gegnum kerfið og leiða hana til lykta þrátt fyrir þung­lama­leg og tíma­frek af­skipti Sam­keppnis­eftir­litsins. Allt ferlið tók ó­eðli­lega langan tíma. Orri leiddi starf þess hóps sem vann að málinu á vegum Símans með miklum myndar­brag, sem sýnir hversu öflugur stjórnandi hann er,“ segir í rök­stuðningi dóm­nefndar Markaðarins.

Heildar­and­virði sölunnar á Mílu til Ardian var 69,5 milljarðar þegar upp var staðið og sam­þykki Sam­keppnis­eftir­litsins lá fyrir. Það var 3,5 milljörðum lægri upp­hæð en kveðið var á um í upp­haf­legum sölu­samningi.

Orri hefur setið í for­stjóra­stólnum hjá Símanum sam­fleytt í níu ár en á þeim tíma hefur fyrir­tækið gengið í gegnum tals­verðar breytingar. Skerpt hefur verið á þjónustu­hlut­verki fyrir­tækisins og verk­efnum fækkað.

Einn af þeim sem skipa dóm­nefnd Markaðarins segir mikið hafa mætt á stjórn­endum Símans á árinu. „Orri stóð þá vakt með stakri prýði. Hélt hár­rétt á spöðunum og náði góðum samningum fyrir hlut­hafa Símans með tíma­móta­sölu á dóttur­fyrir­tækinu Mílu við afar krefjandi að­stæður.“

„Við svipaðar að­stæður hefðu margir ef­laust játað sig sigraða."

Margir sem sátu í dóm­nefnd Markaðarins nefndu þraut­seigju Orra á þessum krefjandi tímum. Hún hafi um­fram annað riðið bagga­muninn þegar öll sund virtust lokuð og franski kaupandinn farinn að ó­kyrrast.

„Við svipaðar að­stæður hefðu margir ef­laust játað sig sigraða. Sér­stak­lega í ljósi þess óróa sem var farinn að gera vart við sig á mörkuðum um svipað leyti.“

Sjálfur segist Orri líta stoltur til baka þegar árið er gert upp. Hann segir allt starfs­fólk og stjórn Símans deila viður­kenningu dóm­nefndar Markaðarins með honum. „Þau stóðu sig öll eins og hetjur á krefjandi tímum. Hópurinn stóð þétt saman og landaði samningum á elleftu stundu. Við snúnar að­stæður,“ segir Orri Hauks­son, við­skipta­maður ársins að mati dóm­nefndar Markaðarins.

2. sæti

Út­sjónar­samur stjórnandi

Gunn­þór Ingva­son, fram­kvæmda­stjóri Síldar­vinnslunnar, náði eftir­tektar­verðum árangri í ís­lensku við­skipta­lífi á árinu. Hann hafnaði í öðru sæti í vali dóm­nefndar Markaðarins á við­skipta­manni ársins.

Gunnar Andrésson

„Kaup Síldar­vinnslunnar á út­gerðar­fyrir­tæki Vísis í Grinda­vík eru risa­stór og sögu­leg."

„Eftir afar far­sæla skráningu í Kaup­höll Ís­lands á síðasta ári hefur Gunn­þór staðið í stór­ræðum. Kaup Síldar­vinnslunnar á út­gerðar­fyrir­tæki Vísis í Grinda­vík eru risa­stór og sögu­leg. Sam­keppnis­eftir­litið hefur nú heimilað 31 milljarðs króna við­skiptin og Vísir er orðinn hluti af sam­stæðu Síldar­vinnslunnar. Eftir stendur gríðar­lega sterkt fé­lag, stýrt af öflugum for­stjóra,“ segir í rök­stuðningi eins af á­lits­gjöfum Markaðarins.

Gunn­þór og Síldar­vinnslan bættu svo um betur með kaupum á lið­lega 34 prósenta hlut í lax­eldis­fyrir­tækinu Arctic Fish fyrir tæp­lega 14 milljarða. Hlut­hafar Síldar­vinnslunnar geta vel við unað með á­vöxtun hluta­bréfa, ó­líkt mörgum í kaup­höllinni í dag. Fé­lagið hefur enda hækkað einna mest allra skráðra fyrir­tækja á árinu.

Það er jafn­framt sam­dóma álit dóm­nefndar að Gunn­þór hafi sýnt, svo ekki verður um villst, að hann hafi yfir­burða­þekkingu á ís­lenskum sjávar­út­vegi og sé afar út­sjónar­samur.

3. sæti

Að­dáunar­verður árangur og sala

Helgi Her­manns­son seldi ný­sköpunar­fyrir­tækið Sling til banda­ríska tækni­fyrir­tækisins Toast fyrir 8,6 milljarða á árinu. Hann hafnaði í þriðja sæti í vali dóm­nefndar Markaðarins á við­skipta­manni ársins.

Helgi stofnaði Sling fyrir rúmum sjö árum og er það sam­dóma álit dóm­nefndar að hann hafi átt ösku­bu­sku­ævin­týri ársins í ís­lensku við­skipta­lífi.

Hug­mynd að baki Sling er hug­búnaður fyrir vinnu­staði þar sem unnið er á vöktum.

„Ó­trú­lega flott upp­bygging og enn flottari sala. Að fara á sjö árum úr því að labba á milli mögu­legra við­skipta­vina í Banda­ríkjunum með Power­Point-skjal yfir í að selja fyrir­tækið á yfir 8 milljarða er ekkert minna en af­rek.“

Toast til­kynnti um kaupin á sumar­mánuðum og bætti þar með Sling við lausnir fyrir­tækisins á sviði launa­vinnslu og teymis­stjórnunar. Toast-hug­búnaður er nýttur af veitinga­stöðum um allan heim.

Helgi er lang­stærsti hlut­hafinn í Sling og stofnandi. Sam­kvæmt honum eru spennandi tímar fram undan eftir þetta risa­stóra skref á árinu. Ævin­týrið sé rétt að byrja.

Dóm­nefnd Markaðarins telur nær öruggt að meira eigi eftir að heyrast af sigrum Helga Her­manns­sonar og Sling á næstu árum.

Þau sem einnig voru til­nefnd

Gerður Huld Arin­bjarnar­dóttir eig­andi Blush
„Gerður hefur marg­faldað rekstrar­tekjur Blush og vakið verð­skuldaða at­hygli fyrir snilldar­lega út­færða markaðs­setningu. Magnaður frum­kvöðull sem hikar ekki við að fara ó­troðnar slóðir.“

Ásta Fjeld­sted for­stjóri Festi
Ásta er ferskur and­blær í hópi stjórn­enda ís­lenskra fyrir­tækja. Ó­venju­leg, kraft­mikil og já­kvæð. Lægði öldur innan Festi eftir ólgu í kringum brott­hvarf fyrr­verandi for­stjóra.“

Samsett mynd.

Guð­mundur F. Sigur­jóns­son stofnandi og for­stjóri Kerecis
„Guð­mundur stýrir spennandi fyrir­tæki á al­þjóða­markaði. Kerecis fékk mikla viður­kenningu á árinu þegar er­lendir fag­fjár­festar komu inn í fé­lagið og Kerecis vex jafnt og þétt.“

Gísli Herjólfs­son stofnandi Controlant
„Gísli heldur á­fram að byggja á góðum grunni og treysta rekstur á einu arð­bærasta fé­lagi landsins. Ekki sjálf­gefið að halda svo vel á spöðunum eftir ævin­týra­legan vöxt síðustu ára.“