Konur eru nú nærri helmingur þeirra sem ráðnir eru til starfa hjá Origo. Dröfn Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri Origo, segir að í upphafi árs hafi Origo sett sér það markmið að helmingur allra nýráðinna á árinu yrðu konur, en líkt og hjá mörgum öðrum tæknifyrirtækjum þá hallar á konur hjá Origo.

„Kynjahlutföll í starfsstéttum breytast ekki af sjálfu sér. Það þarf að taka ákvörðun um að breyta og fylgja slíkri ákvörðun eftir með aðgerðum. Við höfum því lagt okkur fram við að hvetja konur til að sækja um og höfum lagt áherslu á mikilvægi þess að hafa fjölbreytni í öllum teymum,“ segir Dröfn.

Hjá Origo starfa um 450 starfsmenn, 72 prósent karlar og 28 prósent konur. Kynjahlutfallið hefur í áraráðir verið 75/25 og er nú loksins að byrja að hreyfast, að sögn Drafnar. „Til þess að breyta þessu hlutfalli, höfum við lagt áherslu á nýráðningar. Það sem af er ári hafa 55 verið ráðnir inn og er kynjahlutfallið nánast jafnt. Um er að ræða verulega breytingu í nýráðningum en árið 2019 voru konur 21 prósent og 40 prósent í fyrra.

„Við leggjum áherslu á að fá til okkar fólk með fjölbreytta þekkingu sem getur tekið þátt í að þróa tæknilausnir morgundagsins. Við höfum lagt töluverða áherslu á að jafna kynjahlutfallið hjá Origo en það hefur hallað verulega á konur í þeim efnum á liðnum árum. Við erum þó á góðri leið og í takt við markmið okkar um að auka fjölbreytileika starfsfólks, sem felur m.a. í sér að 50 prósent ráðninga séu konur,“ segir Dröfn.