Íslendingar versla á netinu í svipuðum mæli og Danir. Fyrir Covid-19 stóðum við þeim töluvert að baki í netverslun. Samkvæmt Netverslunarpúlsinum versla 47 prósent þjóðarinnar á netinu á sjö daga tímabili. Hlutfallið er enn hærra þegar litið er til aldurshópsins 25 til 34 ára, eða 64 prósent. Þetta segir Trausti Heiðar Haraldsson, framkvæmdastjóri Prósents, í samtali við Markaðinn.

Prósent heldur utan um Netverslunarpúlsinn í samstarfi við Rannsóknarsetur verslunarinnar og Samtök verslunar og þjónustu. 200 svörum frá fólki eldra en 18 ára er safnað í hverjum mánuði. Gagnasöfnunin hófst í mars og hefur yfir 1.900 svörum verið safnað. Mælingarnar byggja á sænskum og dönskum fyrirmyndum.

Trausti segir að fyrir fáeinum árum hafi fólk einkum verslað við erlendar netverslanir. Samkvæmt Netpúlsinum keyptu 70 prósent landsmanna síðast af innlendri netverslun. Það sé sambærilegt hlutfall og í Danmörku. „Sama þróun hefur átt sér stað í Danmörku, innlend netverslun fer þar vaxandi á kostnað erlendrar netverslunar,“ segir hann.

Að sögn Trausta eru tækifæri fyrir innlenda netverslun að auka vöruúrvalið til að fanga stærra hlutfall af sölunni vegna þess að helsta ástæða þess að Íslendingar kaupi af erlendum netverslunum sé að varan fékkst ekki hér á landi.

Stærstu netverslanir landsins eru, samkvæmt Netpúlsinum, Domino’s, Heimkaup, Tix.is, Elko og Eldum rétt. Þær vinsælustu á erlendri grundu eru Amazon, AliExpress, Asos, eBay og Boozt. „Salan dreifist vel á milli netverslana,“ segir Trausti Heiðar.

Trausti Heiðar Haraldsson, framkvæmdastjóri Prósents.
Mynd/Aðsend

Samkvæmt könnuninni keyptu 77 prósent landsmanna síðast vöru á netinu en 23 prósent nefndu þjónustu. Meðalfjárhæð kaupa var 18.700 krónur. „Íslendingar keyptu mun meiri af þjónustu en vörum frá Bandaríkjunum,“ segir Trausti Heiðar og nefnir í því samhengi til dæmis áskriftir að Netflix og ýmsum öðrum streymisveitum.

Barnafjölskyldur versla meira á netinu, samkvæmt Netpúlsinum, eða um 58 prósent á einni viku. „Foreldrar barna hafa minni tíma til að fara í verslanir,“ bendir Trausti á.

Konur versla meira á netinu en karlar. Konur höfðu keypt í 51 prósenti tilvika á netinu í liðinni viku en karlar í 43 prósentum tilvika.

„Það kemur á óvart að landsbyggðin versli minna á netinu en íbúar höfuðborgarsvæðisins í ljósi þess að þar er minna úrval af verslunum,“ segir Trausti og bendir á að hlutfall Reykvíkinga sem keyptu á netinu í liðinni viku hafi verið 51 prósent, 45 prósent hjá þeim sem búi í nágrannasveitarfélögum en 43 prósent á landsbyggðinni.

Trausti segir að fólk versli að meðaltali 30 daga á ári á netinu eða 2,5 sinnum í mánuði. Mest hafi verið keypt af skyndibita og mat af veitingahúsum eða í 20 prósentum tilvika, fatnaði í 20 prósentum tilvika, matvöru og dagvöru í 14 prósentum tilvika, snyrtivörur, heilsu og lyf í 12 prósentum tilvika, menningu og upplifun í 9 prósentum tilvika, ferðalög í 8 prósentum tilvika, raftæki í 7 prósentum tilvika og íþrótta- og frístundavörur í 6 prósentum tilvika.

Hann vekur athygli á því að einhleypir kaupi meira af skyndibita á netinu en þeir sem séu í hjónabandi.

Um fjórðungur hyggst versla meira á netinu

Um fjórðungur þjóðarinnar hyggst versla meira á netinu á næstu tólf mánuðum en 8 prósent ætla að versla minna. „Þeir sem stefna á að draga saman seglin varðandi kaup á netinu eru einkum þeir sem eldri eru. Aldurshópurinn 35-44 hyggst versla 28 prósentum meira á netinu á næstu mánuðum en það er sá aldur sem verslar hvað mest á netinu. Af þeim sökum má búast við mestri tekjuaukningunni ef sá hópur eykur við kaup sín,“ segir Trausti