Helgi Helgason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri gagnavers Verne Global á Íslandi sem staðsett er á Ásbrú í Reykjanesbæ. Hann mun hafa umsjón með daglegum rekstri, leiða fyrirhugaða stækkun og útvíkkun þjónustuframboðs.

Helgi, sem gekk til liðs við Verne Global 2008, segist „spenntur að taka við stöðu framkvæmdastjóra, og taka þátt í því að þróa áfram gagnaver á heimsmælikvarða, þar sem við nýtum sérstöðu Íslands varðandi hreina orku, öruggt rafmagn og hagstæða loftkælingu.“

Fyrr á árinu gekk Verne Global frá hlutafjáraukningu frá hluthöfum og lánsfjármögnun frá Arion upp á 27 milljónir dala, til að auka afkastagetu gagnaversins. Aukin afkastageta mun hjálpa því að anna eftirspurn frá bæði núverandi og mögulegum viðskiptavinum eftir ofurtölvulausnum.

Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors, hafði forystu um stofnun Verne Global 2007 ásamt General Catalyst. Wellcome Trust, einn stærsti bakhjarl rannsókna í líf- og læknisfræði í heiminum, fjárfesti í gagnaverinu 2010.

Helgi Helgason, nýr framkvæmdastjóri Verne Global á Íslandi.