Hofgarðar ehf. sem er í eigu Helga Magnússonar hefur selt öll hlutabréf sín í Bláa Lóninu til Stoða, eins umsvifamesta fjárfestingafélags landsins, en um er að ræða rúmlega sex prósenta eignarhlut í félaginu.

Helgi segir í viðtali við Markaðinn að viðskiptin hafi borið brátt að. Hann hafi fengið mjög áhugavert kauptilboð í hlutabréfin og ákveðið að slá til og selja allan eignarhlutinn. Hann segir að verðið sé trúnaðarmál milli seljanda og kaupanda, „en hér er um mikil verðmæti að ræða,“ að hans sögn.

Fjárfestingafélagið Stoðir, sem kaupir hlutinn af Helga, eru stærstu hluthafar Símans og Kviku banka auk þess að vera á meðal stærstu eigenda flugfélagsins Play og Arion banka.

Félag Helga fjárfesti í Bláa Lóninu fyrir um sautján árum og tók hann þá sæti í stjórn félagsins. Hann hefur gegnt formennsku hin síðari ár. Helgi lætur nú af stjórnarsetu í félaginu á þessum tímamótum.

„Ég hef tekið þátt í því stórkostlega ævintýri sem rekstur, þróun og uppbygging Bláa Lónsins hefur verið. Það hefur verið einstaklega áhugavert og gefandi viðfangsefni í alla staði. Í stjórninni hef ég unnið með fjölmörgu frábæru fólki og eins þeim sem sjá um rekstur félagsins frá degi til dags. Þar er fremstur í flokki forstjórinn, Grímur Sæmundsen, stofnandi og frumkvöðull fyrirtækisins allt frá upphafi,” segir Helgi.

Helgi Magnusson er fráfrarandi stjórnarformaður Bláa lónsins.

Hann bendir enn fremur á að þegar hann hafi fyrir skömmu staðið frammi fyrir freistandi tilboði, hafi hann gert sér ljóst að allt hefur sinn tíma. „Ég er orðinn sjötugur og hef notið þess að taka þátt í uppgangi Bláa Lónsins, bæði sem hluthafi og stjórnarmaður. Á undanförnum árum hef ég hætt störfum í nokkrum stjórnum fyrirtækja, félaga og stofnana og orðið vitni að því að þau hafa þrátt fyrir það gengið vel áfram! Enginn er ómissandi, hvorki ég né aðrir,” segir Helgi.

Bláa Lónið er lykilfyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu sem að sögn Helga á svo sannarlega framtíðina fyrir sér í áframhaldandi vexti. „Ég óska fyrirtækinu, starfsfólki þess og forystunni alls hins besta í framtíðinni um leið og þakka frábært og árangursríkt samstarf í sautján ár,“ segir Helgi Magnússon.

Rétt er að geta þess að Helgi er formaður stjórnar Torgs ehf. sem gefur út Fréttablaðið og Markaðinn. Félög í eigu hans eru stærstu hluthafarnir í Torgi.