Travelshift hefur ráðið til starfa þau Helga Pál Helgason og Helgu Ingimundardóttur.

Helgi Páll tekur við starfi forstöðumanns gervigreindar og Helga verður yfirmaður rannsókna á sviði gervigreindar.

Helgi Páll lauk doktorsprófi í almennri gervigreind frá Háskóla Reykjavíkur árið 2013. Þá lauk hann B.Sc. og M.Sc. í tölvunarfræði við Háskóla Íslands.

Helgi Páll hefur víðtæka reynslu á sviði gervigreindar og hugbúnaðarþróunar. Hann starfaði síðast hjá Activity Stream og þar áður hjá Vodafone og Kaupþingi.

,,Ég er mjög spenntur að fá að koma að áframhaldandi uppbyggingu á gervigreind í ferðatækni hjá Travelshift og að fá tækifæri til að vinna fyrir fyrirtæki sem er frábært í því að ná árangri og að laða til sín úrvals fólk á öllum sviðum. Svo elska ég líka að ferðast, sjá nýja staði og upplifa nýja hluti," segir Helgi Páll.

Helga lauk doktorsprófi í reikniverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2016. Þá lauk hún B.Sc.í stærðfræði við Háskóla Íslands árið 2008 og M.Sc. í reikniverkfræði árið 2010.

Undanfarin ár hefur Helga starfað sem gagnasérfræðingur hjá CCP Games og vísindakona hjá raðgreiningardeild Íslenskrar erfðagreiningar.

„Ég er mikill heimshornaflakkari og hef heimsótt hátt í 50 lönd í sex heimsálfum. Ég þekki því vel hvað það það krefst mikils undirbúnings að skipuleggja ferðalög. Það eru því mikil forréttindi fyrir mig að fá tækifæri til að samtvinna sérhæfingu mína í gervigreind með mínu helsta áhugamáli og einfalda túristum að ferðast og upplifa heiminn," segir Helga.