Helga Kristín Auðunsdóttir, lögfræðingur og lektor við Háskólann á Bifröst, verður í framboði til stjórnar TM á aðalfundi tryggingafélagsins í næsta mánuði. Hún er á meðal fimm frambjóðenda sem tilnefningarnefnd félagsins leggur til að verði kjörnir í stjórnina.

Tilnefningarnefnd TM, sem birti skýrslu sína í gær, bárust alls fimm framboð til stjórnar tryggingafélagsins og þar af frá fjórum núverandi stjórnarmönnum.

Auk Helgu Kristínar leggur tilnefningarnefndin til að núverandi stjórnarmennirnir Andri Þór Guðmundsson, Einar Örn Ólafsson, Kristín Friðgeirsdóttir og Örvar Kærnested stjórnarformaður verði kjörnir í stjórn TM.

Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, sem setið hefur í stjórn félagsins frá árinu 2015, gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Þá leggur nefndin jafnframt til að Bjarki Már Baxter og Bryndís Hrafnkelsdóttir verði endurkjörin í varastjórn TM.

Helga Kristín, sem sat í varastjórn TM á árunum 2012 til 2015, hefur starfað við Háskólann á Bifröst í um átta ár en þar áður starfaði hún sem lögfræðingur hjá Stoðum og kennari við háskólann í Miami.

Hún hefur lokið BS-prófi í viðskiptalögfræði og ML-prófi í lögfræði frá Háskólanum á Bifröst, LLM-prófi í alþjóðlegum viðskiptarétti og samningsgerð frá háskólanum í Miami og mun næsta vor ljúka doktorsnámi frá Fordham-háskólanum í New York en þar hefur hún meðal annars rannsakað fjárfestingar vogunarsjóða.

Kosið verður í stjórn TM á aðalfundi félagsins 12. mars næstkomandi.