Helga Dís Jakobsdóttir og Pétur Karl Ingólfsson hafa verið ráðin til Samkaupa og hefja þau störf þann 1. febrúar næstkomandi.

Helga Dís Jakobsdóttir hefur verið ráðin í stöðu þjónustu- og upplifunarstjóra Nettó. Hún útskrifaðist með BS-gráðu í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og forystu frá Háskóla Íslands. Einnig hefur hún lokið MS-gráðu í þjónustustjórnun frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Pétur Karl Ingólfsson tekur við stöðu upplýsingatæknistjóra Samkaupa. Hann hefur meðal annars starfað sem verkefnastjóri á sviði stafrænna vara og stefnumótunar hjá Icelandair. Pétur hefur einnig starfað við hugbúnaðarþróun og rekstur hjá Isavia/Duty Free og vefþróun hjá 365 miðlum.

„Það er afar ánægjulegt að fá svona reynslumikið og hæfileikaríkt fólk í hópinn okkar og við bjóðum þau hjartanlega velkomin,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdarstjóri mannauðssviðs Samkaupa.

Hjá Samkaupum starfa alls um 1.300 manns í tæplega 700 stöðugildum.

Samkaup reka um 60 verslanir víðsvegar um landið. Helstu verslanamerki Samkaupa eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland.