Helena Sævarsdóttir hefur nýlega tekið við nýju starfi sem Head of Drug Production, hjá líftæknilyfjafyrirtækinu Alvotech og jafnframt tekið sæti í stýrihópi tækni- og framleiðslusviðs, þar sem hún leiðir hóp sérfræðinga í að tryggja innleiðingu framleiðsluferla. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Helena hóf störf hjá Alvotech árið 2016 sem sumarstarfsmaður og gekk svo til liðs við framleiðslusvið að loknu námi.

Hún hefur gengt ýmsum verkefnum á því sviði, meðal annars sem teymisstjóri og samhæfingarstóri, stýrt þjálfun og innleiðingu á mikilvægum ferlum sem nauðsynlegir eru fyrirtækjum í lyfjaframleiðslu, á tíma þegar verksmiðjan hefur verið í uppbyggingu. Í starfi sínu á framleiðslusviði, stýrir Helena ört vaxandi hópi sérfræðinga frá 16 þjóðlöndum við sérhæfða framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja, fyrir markaði víða um heim.

Helena er með BS gráðu í Líftækni frá Háskólanum á Akureyri og er í MBA námi í Háskólanum í Bradford.

„Það er einstaklega áhugavert að fá tækifæri til að taka þátt í uppbyggingu nýrrar líftæknilyfjaverksmiðju frá grunni“, sagði Helena. „Sérstaklega með þá vitneskju að við erum að bæta lífsgæði fólks um allan heim með því að gera þessi sérhæfðu hátæknilyf aðgengilegri á hagstæðara verði en hefur tíðkast. Það hjálpar til þegar byggja þarf öfluga liðsheild að geta sameinast undir svona göfugu markmiði. Það er líka gefandi að starfa í svona fjölþjóðlegu umhverfi og fá tækifæri til að öðlast alþjóðlega reynslu á í sínu eigin heimalandi.“

Helena lét mikið að sér kveða í fótbolta á árum áður, en hún spilaði meðal annars með meistaraflokki KR í nokkur ár.