Franska sjóða­stýringafyrir­tækið Ardian, sem hefur gert sam­komu­lag um kaup á Mílu af Símanum, segir fjár­festinguna vera lang­tíma­fjár­festingu. Þetta kemur fram í við­tali RÚV við Daniel Graf von der Schule­n­burg, fram­kvæmda­stjóra inn­viða­fjár­festinga Ardian í Norður-Evrópu.

Daniel var spurður í við­talinu hvort það kæmi til greina á ein­hverjum tíma­punkti að selja hlut úr Mílu til rúss­neskra eða kín­verskra fyrir­tækja og þver­tók hann fyrir það.

„Nei það verður aldrei gert. Við fjár­festum til mjög langs tíma. Það eru tvær á­stæður fyrir því. Önnur er sú að næstum allir fjár­festar okkar eru tryggingar­fé­lög, líf­eyris­sjóðir og fjár­festingar­sjóðir ríkja. Þessir fjár­festar horfa til mjög langs tíma,“ sagði Daniel og bætti við að meiri­hluta sjóðanna eru frá Evrópu.

Hann sagði að inn­viða­fjár­festingar væru alltaf lang­tíma­fjár­festingar og því mætti ekki búast við því að franska fyrir­tækið væri að yfir­gefa landið í bráð.

„Lík­lega verðum við hér í marga ára­tugi,“ sagði Daniel.

Sér mikla möguleika á Íslandi

Daniel að ástæðan fyrir fjárfestingu væri í raun tvíþætt það er stöðugt hagkerfi á Íslandi og miklir möguleikar í Mílu.

„Okkur finnst mjög að­laðandi að fjár­festa á Ís­landi. Landið er auðugt og hag­kerfið á bjarta fram­tíð. Þjóðin er vel menntuð og gatt jafn­vægi í þjóð­fé­laginu. Við viljum hafa stöðug­leika og góðar horfur þarf sem við fjár­festum,“ sagði Daníel.

„Í öðru lagi þykir okkur Míla afar spennandi tæki­færi. Það sem ég við með spennandi er að það er svig­rúm til að bæta sig,“ bætti hann við

Franska sjóða­stýringar­fyrir­tækið hyggst nýta þekkingu sína og fjár­festa í fyrir­tækinu og inn­viðum.

Aukin á­hersla verður lögð á koma ljós­leiðara­tengingu á í dreifðari byggðum og halda á­fram upp­byggingu 5G far­síma­kerfis.

Með sölunni er Míla ekki lengur dóttur­fé­lag Símans og segir Daniel fyrir­tækið hyggst bjóða öllum fjar­skipta­fyrir­tækjum á Ís­landi í við­skipti.

„Við viljum bjóða öllum að­gang og sam­nýtingu inn­viða og með því gefa Ís­lendingum kost á sem hag­kvæmastri net­tengingu,“ sagði Daniel.

Gert er ráð fyrir að ís­lenskir líf­eyris­sjóðir kaupi 20% í Mílu. Daniel segir að sam­komu­lagið sé í höfn en það eigi eftir að inn­sigla það með fjár­munum.