MacKenzie Bezos, fyrrverandi eiginkona bandaríska auðkýfingsins Jeff Bezos, hefur heitið því að hún muni gefa helming auðæfa sinna til góðgerðarmála.

Þar með bætist hún í hóp manna á borð við Warren Buffett og Bill Gates sem sitja ansi ofarlega á Forbes-listanum yfir milljarðamæringa. Þeir Buffett og Gates hrundu af stað áskoruninni „Giving Pledge“ sem felur það í sér að fólk láti hið minnsta helming auðæfa sinna renna til góðgerðarmála.

Eignir MacKenzie Bezos eru metnar á um 37 milljarða dala, jafnvirði um 4.605 milljarða íslenskra króna. Hún og eiginmaður hennar, Jeff Bezos, sem stofnaði smásölufyrirtækið Amazon á tíunda áratugnum, gengu í gegnum skilnað fyrr á þessu ári eftir 26 ára hjónaband.

Við það hlaut MacKenzie 4 prósent hlut í fyrirtækinu sem er meðal þeirra sem skilar mestum hagnaði í heiminum.

„Þrátt fyrir hvers lags eignir sem mér hafa áskotnast í gegnum lífið á ég óhóflega mikið af peningum til þess að deila með öðrum,“ skrifar MacKenzie Bezos meðal annars í yfirlýsingu.

Það eru fleiri sem heitið hafa því að gefa megnið af auðæfum sínum til góðgerðarmála. Margir hafa eflaust heyrt um loforð þeirra Mark Zuckerberg, stofnanda Facebook, og eiginkonu hans, Priscillu Chan, um að gefa 99 prósent eigna sinna.