Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í Sjávarútvegi, segir alhæfingar Björgólfs Thor Björgólfssonar um meint brask í sjávarútveginum ómálefnalegar.

Þetta skrifar Heiðrún Lind í pistli á vef samtakanna en þar svarar hún pistli Björgólfs sem hann skrifaði á heimasíðu sinni í vikunni. Björgólfur sagði „kvótagreifa“ setja nýtt met í arðgreiðslum og „gefa almenningi fingurinn“ á sama tíma og margir þingmenn leituðu leiða til að tryggja að útgerðir greiði sem allra minnst fyrir aðgang sinn að þjóðareign. Spurði Björgólfur hvers vegna arðurinn af auðlindinni rynni ekki í sameiginlegan sjóð þjóðarinnar, eins og arður Norðmanna af olíuvinnslu. 

Sjá einnig: Björgólfur Thor furðar sig á „útgerðarbraski“

Í svargrein sinni segir Heiðrún Lind að orðfæri Björgólfs valdi vonbrigðum og efnistökin komi nokkuð á óvart, sér í lagi þegar litið er mikillar reynslu Björgólfs af viðskiptum.

„Á tímabilinu 2010-2016 voru arðgreiðslur í sjávarútvegi um 21% af hagnaði. Til samanburðar voru arðgreiðslur í viðskiptahagkerfinu öllu á sama tímabili um 31% af hagnaði,“ segir Heiðrún og bendir á að arðgreiðslur fjarskiptafyrirtækisins Nova til hluthafa sinna hafa numið 45 prósentum af hagnaði á tímabilinu 2010 til 2016 en Björgólfur var hluthafi megnið af tímabilinu.

Heiðrún víkur að auðlindagjaldsspurningunni og samanburðinum við Noreg.

„Það vekur raunar undrun að Björgólfur skuli í annars fátæklegum rökstuðningi bera saman olíuna og fiskinn í sjónum, enda er þar um að ræða samanburð á eplum og appelsínum. Rétt hefði verið að bera saman þann arð sem sjávarútvegur í Noregi greiðir, við þann sem sá íslenski greiðir. Eru þá bornar saman sambærilegar atvinnugreinar á milli landa, sem eiga jafnframt í harðri samkeppni sín á milli. Því er þá til að svara að sjávarútvegur í Noregi greiðir ekkert auðlindagjald. Ef Björgólfur vill að Íslendingar greiði af sjávarauðlindinni það sama og Norðmenn, þá verður niðurstaðan æði snautleg. Sem betur fer er íslenskur sjávarútvegur burðugari en svo.“

„Kvótagreifar“ fáir

Heiðrún segir rétt í ljósi „ósmekklegrar orðnotkunar um kvótagreifa“ að halda því til haga að yfir 95 prósent þess kvóta, sem upphaflega var úthlutað, hafi skipt um hendur í hefðbundnum viðskiptum. Fáir í sjávarútvegi hafi borið titil „svokallaðra greifa“, sem komast í álnir fyrir ættir einar.

„Björgólfur hefur að líkindum sjálfur fengið ofgnótt umræðu um eigin viðskipti. Undan henni er ekki hægt að kveinka sér, en þá kröfu hlýtur hann sjálfur að gera að umræðan sé upplýsandi og málefnaleg. Í gagnrýni hans á sjávarútveg, hlýtur að mega gera sömu lágmarkskröfu.“

Hér má lesa pistil Heiðrúnar í heild sinni.