Wedo ehf., sem á og rekur vefverslanirnar Heimkaup, Hópkaup og Bland, tapaði 181 milljón króna á síðasta ári, samanborið við 340 milljónir króna á árinu 2018. Hlutafjáraukning að fjárhæð 180 milljónir króna og markvissar aðgerðir til að bæta reksturinn hafa tryggt rekstrarhæfi félagsins að mati stjórnar þess.

Tekjur Wedo námu 1.292 milljónum króna á árinu 2019 og jukust um rúmlega 8 prósent á milli ára. COVID-19 heimsfaraldurinn varð til þess að mikill vöxtur varð í sölu félagsins fyrstu mánuði ársins 2020, og voru mars og apríl veltumestu mánuðir í sögu þess.

Í byrjun árs 2020 var hlutafé félagsins aukið um 180 milljónir króna auk þess sem til staðar er heimild til að auka hlutafé um 170 milljónir króna til viðbótar.

„Með bættri rekstrarniðurstöðu, hlutafjáraukningu og heimild til frekari útgáfu hlutafjár, hefur rekstrarhæfi félagsins verið tryggt,“ segir í skýrslu stjórnar Wedo í ársreikningi félagsins, en uppfærðar rekstraráætlanir gera ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu á árinu 2020

Þá kemur fram að á árinu 2019 og fyrstu mánuði ársins 2020 hafi stjórnendur félagsins farið í markvissar aðgerðir til að bæta rekstur og arðsemi félagsins.

„Þessar aðgerðir hafa skilað sér í bættri rekstrarniðurstöðu ársins 2019 og rekstri fyrstu mánaða ársins 2020,“ segir í skýrslunni.

Stærsti hluthafi Wedo samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2019 er Skeljungur, með 33 prósenta hlut. Hyrna, félag Fjölvars Darra Rafnssonar, fer með tæplega 19 prósenta hlut og Kaskur, félag Inga Guðjónssonar, eins af eigendum Lyfju, fer með 15 prósenta hlut.

Í árslok gaf Wedo út tveggja ára breytanlegt skuldabréf að fjárhæð 150 milljónir króna, en eigandi bréfsins er einn af hluthöfum Wedo. Honum er heimilt að breyta eftirstöðvum skuldabréfsins að hluta eða öllu leyti í hlutafé, miðað við gengið ein króna á hlut. Alls nemur hlutafé Wedo 1.030 milljónum króna eftir hlutafjáraukninguna í byrjun árs 2020.