Pálmi Jónsson, framkvæmdastjóri Heimkaups, segir að Heimkaup sé að fylgja því regluverki sem er í gildi um áfengissölu. Það er danska fyrirtækið Heimkaup ApS sem selur áfengið en Heimkaup (Wedo ehf) dreifir vörunni.
Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum hafi lagt inn kæru gegn versluninni til lögreglu í kjölfar þess að salan hófst. Pálmi segir að hann hafi sjálfur ekki séð kæruna og geti því lítið tjáð sig um hana.
„Við erum einfaldlega að fylgja því regluverk sem í gildi er en það er sjálfsagður réttur fólks að hafa aðra skoðun á hvað sé rétt og hvað ekki. Höfum því í raun engu þar að bæta við,» segir hann í svari til Fréttablaðsins um málið.
Í takt við væntingar
Pálmi segir að salan á áfengi í gær hafi verið í takt við þeirra væntingar en í gær hófst áfengissala hjá versluninni með heimsendingu.
„Við erum ánægð með viðbrögð okkar viðskiptavina,“ segir Pálmi en hann segir að þau tryggi að áfengið sé komið til viðtakanda ekki síðar en tveimur klukkustundum eftir að það er pantað hjá þeim.
„Við afhendum áfengið frá klukkan átta á morgnana til klukkan átta á kvöldin.“