Tann­lækna­stofa Heimis Hall­gríms­sonar í Vest­manna­eyjum og Tann­lækna­stofan í Glæsi­bæ hafa sam­einast undir einn hatt. Stofurnar munu starfa undir nýju nafni sem til­kynnt verður um síðar. Heimir Hall­gríms­son er fyrr­verandi lands­liðs­þjálfari ís­lenska knatt­spyrnu­lands­liðsins og nú­verandi þjálfari Al-Arabi í Katar.

Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu. Þar segir að um sé að ræða þrjár stofur; Tann­lækna­stofuna í Glæsi­bæ, sem rekur einnig stofu í Faxa­feni, og tann­lækna­stofu Heimis.

„Þetta er spennandi sam­starf,“ segir Heimir í til­kynningunni.

„Þjónusta við við­skipta­vini okkar hér í Eyjum er komin í öruggar hendur og mér finnst spennandi að vera hlut­hafi í þessari öflugu vaxandi stofu sem býður upp á betri sér­fræði­þjónustu en hingað til hefur verið í boði í Eyjum. Svo er aldrei að vita hvað knatt­spyrnu­fram­tíðin ber í skauti sér, en á meðan ég er úti í Katar hlakka ég til sem hlut­hafi að taka þátt í upp­byggingu sterks fyrir­tækis úr fjar­lægð,” bætir hann við.

Fram kemur í til­kynningunni að Tann­lækna­stofan í Glæsi­bæ sé ein stærsta tann­lækna­stofa landsins með yfir fjöru­tíu starfs­menn, þar af fimm­tán tann­lækna og sér­fræðinga. Þá sé hún lang­stærst í þjónustu við börn á Ís­landi, en þrír af hverjum fjórum barnatann­læknum landsins starfa innan hennar.

Eva Guð­rún Sveins­dóttir, barna­sér­fræðingur og stjórnar­for­maður Tann­lækna­stofunnar í Glæsi­bæ, segist í tilkynningunni fagna því að fá Heimi í hópinn. Tekið er fram að Eva Guðrún hafi búið í Vestmannaeyjum og starfað hjá Heimi áður en hún fór í sérfræðinám.

„Með Heimi innan­borðs munum við leggja okkur fram við að tryggja þá bestu þjónustu sem við höfum upp á að bjóða. Auk al­mennra tann­lækna, þá vinna á Tann­lækna­stofunni í Glæsi­bæ sér­fræðingar í barnatann­lækningum, rót­fyllingum, tann­fyllingu og tann­sjúk­dóma­fræði. Mark­miðið er að þessir sér­fræðingar muni koma reglu­lega til Eyja og veita þjónustu sína þar, svo unnt verði að draga úr ferðum Eyja­manna til sér­fræðinga í Reykja­vík,“ segir hún.