Norðurál heimilaði birtingu allra gagna um raforkusamninga fyrirtækisins eins og óskað var eftir vegna vinnu við skýrslu þýska ráðgjafarfyrirtækisins Fraunhofer um samkeppnishæfni íslenskrar stóriðju með tilliti til raforkukostnaðar. Þetta segir Sólveig Bergmann Þuríðardóttir, sem stýrir samskiptasviði Norðuráls.

Hörður Arnarson, forstjór i Landsvirkjunar, sagði í samtali við Markaðinn á miðvikudag að Norðurál hefði ekki viljað birta upplýsingar um raforkuverð sitt í skýrslu Fraunhofer, en sama dag og skýrslan kom út sendi Norðurál frá sér fréttatilkynningu um að fyrirtækið vildi aflétta trúnaðarákvæðum raforkusamninga. „Ég á erfitt með að skilja hvers vegna Norðurál vill núna opna samninga en vill ekki birta upplýsingar sem óháður aðili setur fram, sem hafði afrit af samningnum og gerði vandaða samanburðargreiningu á honum,“ sagði Hörður í viðtalinu í Markaðnum.

„Forstjóri Landsvirkjunar segir að Norðurál hafi ekki heimilað afléttingu trúnaðar í tengslum við birtingu gagna í Fraunhoferskýrslunni. Það er rangt. Hið rétta er að í bréfi Norðuráls til iðnaðarráðuneytisins, dagsettu 2. nóvember, segir eftirfarandi: „Norðurál samþykkir að leyfa birtingu gagna eins og óskað er eftir í skýrslunni,“ segir Sólveig.

Hún segir að fyrirtækið hafi sent beiðni til allra orkufyrirtækja sem Norðurál hefur gert langtímasamninga við um að trúnaði verði aflétt af raforkusamningum. „Ánægjulegt er að forstjóri Landsvirkjunar skuli taka vel í að trúnaði verði aflétt. Við trúum því að aukið gagnsæi á íslenskum orkumarkaði auðveldi uppbyggilega umræðu um orkumál,“ segir hún.

Sólveig bætir því við að rangt sé að Landsvirkjun hafi boðið ódýrara rafmagn en önnur orkufyrirtæki  þegar kom að því að framlengja raforkusamningi félagsins árið 2016. „Í þeim samningi var engin breyting á magni raforku sem Norðurál kaupir af Landsvirkjun. Norðurál tók þátt í þeim samningaviðræðum af heilindum og var aldrei í viðræðum við aðra orkusala um þau kaup. Það var því engin samkeppni um verð.“