Kortavelta hefur aukist mjög og ef horft er til ársbreytingar þegar búið er að taka tillit til verðlagsbreytinga og gengisþróunar krónu er aukningin að raunvirði milli ára 19,9 prósent. Mikill munur er á þróuninni innanlands og erlendis líkt og verið hefur síðustu mánuði þótt aukningin sé almennt veruleg. Þannig jókst kortavelta hjá innlendum verslunum og þjónustuveitendum um 11 prósent milli ára á þennan kvarða en utan landsteinanna varð hins vegar 89 prósenta aukning frá nóvembermánuði í fyrra.

Kortavelta skrapp mjög saman eftir að faraldurinn brast á en er nú orðin meiri en hún var árið 2019.

Samkvæmt greiningardeildinni sést verulegur viðsnúningur í neyslu heimilanna sé veltan frá ársbyrjun 2020 borin saman við viðkomandi mánuð árið 2019 að raunvirði. Frá því að faraldurinn braust út og allt fram á síðasta vor hafi að jafnaði verið um talsverðan samdrátt að ræða frá því fyrir faraldur. Frá júní síðastliðnum megi hins vegar greina ólíka þróun þar sem umsvif heimilanna hafi verið umtalsvert meiri á þennan mælikvarða, að ágústmánuði undanskildum. Í októbermánuði hafi kortavelta til að mynda verið ríflega 11 prósent meiri að raunvirði en í sama mánuði 2019 og í nóvember sl. hafi aukningin verið nærri 14 prósent.

Hér sést vel hve kortaveltan hefur aukist jafnt og þétt.

Greiningardeildin telur ýmislegt skýra þessa athyglisverðu þróun. Hagur heimilanna hafi almennt farið batnandi og eflaust margir átt uppsafnaðan sparnað sem nýttur hafi verið í vaxandi mæli undanfarið. Þá hafi jólaverslun verið að færast framar á lokafjórðung ársins, ekki síst með ört vaxandi vinsældum ýmissa tilboðsdaga í nóvembermánuði.

Landinn hefur tekið ferðagleði sína á ný.

Síðast en ekki síst hafi ferðagleði landsmanna aukist talsvert á nýjan leik með útbreiddri bólusetningu og slökun á landamærahömlum víða í nágrannalöndunum. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu og Isavia lögðu tæplega 34 þúsund Íslendingar land undir fót um Leifsstöð í nóvembermánuði. Var það nokkur fækkun frá októbermánuði (rúm 39 þúsund) en engu að síður var nóvember næststærsti ferðamánuður landsmanna á erlenda grundu frá því faraldurinn skall á.

Kortavelta hefur aukist langt umfram bæði kaupmátt launa og einkaneyslu.

Nú, þegar kortaveltutölur fyrir tvo mánuði af þremur á lokafjórðungi ársins liggja fyrir, telur greiningardeildin þær gefa sterka vísbendingu um býsna myndarlegan einkaneysluvöxt í árslok. Þó beri að hafa hugfast að líklega hefur jólaverslunin verið að færast framar og veltuþróunin í desember kunni að endurspegla það. Líklegast sé þó að einkaneysluvöxtur á síðasta fjórðungi yfirstandandi árs muni reynast mikill og ef eitthvað er slá við þeim tæplega 9 prósenta vexti á milli ára sem Hagstofan mældi á 2. ársfjórðungi. Vöxtur einkaneyslu verði svo nær 6 prósentum en þeim 4,8 prósentum sem spáð var í þjóðhagsspá bankans í september.