Samkeppniseftirlitið hefur veitt rútufyrirtækjunum Kynnisferðum og Airport Direct undanþágu fyrir samstarfi sem miðar að tímabundinni samnýtingu á bifreiðaflota á áætlunarleiðinni á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins. Undanþágan er tímabundin til 31. desember 2020 en fyrirtækin geta sótt um framlengingu ef aðstæður eru enn óhagfelldar.

Á grundvelli samningsskuldbindinga við Isavia, í kjölfar útboðs félagsins vorið 2017, ber Kynnisferðum og Airport Direct skylda til að halda úti áætlunarferðum til og frá flugstöðinni allan sólarhringinn, alla daga ársins, í tengslum við allar komur og brottfarir áætlunar- og leiguflugvéla á Keflavíkurflugvelli.

Samkeppniseftirlitið segir í ákvörðun sinni að unnt sé að fallast á þau hagkvæmnisrök sem felast í tímabundnu samstarfi í ljósi skuldbindinga fyrirtækjanna við Isavia. Með samnýtingu bílaflota sé unnt að minnka rekstrarkostnað og stuðla þannig að hagræði sem skilar sér til neytenda.

Samstarfið er þó bundið þeim skilyrðum að öll samskipti á milli fyrirtækjanna séu afmörkuð við markmið samstarfsins um samnýtingu bifreiðaflotans og taki til að mynda ekki til samræmingar á verði. Þá er það jafnframt forsenda samstarfsins að samstarfsfyrirtækin sinni sjálf eigin markaðsmálum og selji áfram ferðir á áætlunarleiðinni með sjálfstæðum hætti, það er, eftir eigin söluleiðum.

Samstarfið skal því einungis felast í því að samnýta ferðir hópferðabifreiða fyrirtækjanna á áætlunarleiðinni á undanþágutímabilinu. Samstarfsfyrirtækjunum er einungis heimilt að miðla á milli sín þeim upplýsingum sem teljast nauðsynlegar vegna framkvæmdar samstarfsins. Halda þarf skrá yfir samskipti sem falla undir undanþáguna í samræmi við form sem Samkeppniseftirlitið leggur til og Ferðamálastofa þarf að búa yfir þeim gögnum og geta miðlað þeim til Samkeppniseftirlitsins.