Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar hjá Gildi lífeyrissjóði, segist ekki hafa miklar áhyggjur af veltu á hlutabréfamarkaðinum. Þetta segir Davíð í umfjöllun Markaðarins um virkni hlutabréfamarkaðarins.

Að baki sjóðnum er tiltölulega ungur sjóðsfélagahópur og þar af leiðandi eru árlegar inngreiðslur í sjóðinn umfram útgreiðslur. Hefur Gildi því ekki þurft að selja innlendar eignir til að standa undir auknum erlendum fjárfestingum.

„Heilt yfir hefur veltan verið ágæt á innlenda markaðinum og seljanleiki á bréfum flestra skráðu félaganna verið vel ásættanlegur. Það er auðvitað mikilvægt að hafa góðan seljanleika og skilvirka verðmyndun en ég held að við stöndum ágætlega að vígi varðandi hvort tveggja,“ segir Davíð.

„Takmörkuð velta á hlutabréfamarkaði er ein og sér ekki endilega líkleg til að hafa mikil áhrif á mögulegar afskráningar félaga, ég held að það séu aðrir þættir sem hafa mun meira að segja hvað það varðar,“ segir Davíð.

Davíð Rúdólfsson.jpg

Takið þið undir það sjónarmið að æskilegt sé að færa meira fjármagn í virka stýringu?

„Ég held að samdráttur hjá þessum hlutabréfasjóðum stafi af tvennu. Annars vegar hafa einkafjárfestar minnkað við sig og það er eitthvað sem tekur breytingum eftir áhuga þeirra hverju sinni. Hins vegar hafa einverjir lífeyrissjóðir minnkað við sig í þessum hlutabréfasjóðum og fært stýringuna innanhúss sem er það fyrirkomuleg sem við höfum haft hjá Gildi.

Eignir Gildis í innlendum skráðum hlutabréfum eru í virkri stýringu hjá eignastýringu sjóðsins og við erum almennt nokkuð virkur þátttakandi á þeim markaði. Við höfum ekki haft þá stefnu að nota ytri stýringaraðila fyrir slíkar fjárfestingar enda myndi það kosta sjóðinn talsverða fjármuni. Fyrir okkur sem langtímafjárfesti er mjög takmarkaður ávinningur af mikilli veltu hlutabréfasafnsins, þ.e. tíðum viðskiptum til skamms tíma.“