Gerður Guðjónsdóttir hefur verið framkvæmdastjóri Brúar lífeyrissjóðs, sem áður hét Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, frá árinu 2014. Hún segir mikilvægt að hefja vinnu um hvernig eigi að takast á við á hækkandi lífaldur og lágvaxtaumhverfi.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Á síðustu árum hef ég náð að temja mér það að byrja daginn á góðum morgunverði og yfirferð á blöðunum. Hef gert nokkrar heiðarlegar tilraunir til að mæta í ræktina á morgnana með misgóðum árangri, hentar kannski ekki alveg B-týpum eins og ég er.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég hef áhuga á íþróttum og sér í lagi körfubolta og badminton, en golfið er að koma sterkt inn. Ég kynntist íþróttum í gegnum manninn minn sem var allt í öllu á þeim vettvangi, og einnig með þátttöku í íþróttastarfi barna okkar. Ég mæti eins oft og kostur er á völlinn, bæði innan lands sem utan. Nú er ég að reyna að taka golfið fastari tökum en því miður lætur árangurinn á sér standa, en engu síður er golf ótrúlega skemmtilegt. Þá er alltaf gaman eiga góðar stundir með fjölskyldu og góðum vinum. Er nýorðin amma þannig að ég hlakka mikið til að njóta samvista við ömmugullið mitt.

gerður.PNG

Nærðu að halda jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs?

Meira núna en áður enda börnin orðin uppkomin. Þau störf sem ég hef unnið hafa kallað á mikla vinnu og fjarveru frá heimili en með góðum vilja og samvinnu létum við púslið ganga upp. Við vorum líka heppin að eiga gott bakland sem er ómetanlegt. Sem betur fer hafa tímarnir breyst til batnaðar og er nú meira horft til þessa jafnvægis. Stytting vinnuvikunnar er mikið framfaraspor á þeirri vegferð.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstri lífeyrissjóða um þessar mundir?

Mesta áskorunin á þessu ári er vafalaust COVID-19. Á örfáum dögum þurftum við að gjörbreyta starfsemi sjóðanna. Við fluttum starfsstöðvar heim til starfsfólksins, lokuðum sjóðunum tímabundið og fluttum þjónustuna alfarið á netið og í símann. Þannig náðum við að halda úti nánast óskertri þjónustu og að auki tileinkuðum við okkur nýja tækni eins og fjarfundalausnir og innleiddum nýjar stafrænar lausnir. Þetta er búinn að vera ótrúlegur tími sem því miður mun vofa yfir okkur eitthvað áfram. Það jákvæða er að við erum reynslunni ríkari og getum með auðveldum hætti lagað starfsemi okkar hratt að nýjum áskorunum, enda starfar hjá sjóðnum frábært starfsfólk sem er reiðubúið að leggja sitt af mörkum.

„Við verðum að vera vakandi yfir þeim þáttum sem hafa áhrif á skuldbindingar sjóðanna því það er ekki gott að lofa einhverju sem ekki er hægt að standa við.“

Frá því í mars hafa lífeyrissjóðirnir haldið að sér höndum og ekki keypt gjaldeyri út af óvissu vegna COVID-19, en slík inngrip hafa mikil áhrif á áætlanir sjóðanna. Ekki er ljóst hver áhrif veirunnar á hagkerfi heimsins verða til framtíðar en búast má við að markaðir verði fyrir höggi, sem óhjákvæmilega hefur áhrif á sjóðina og eignasafn þeirra. Búast má við talsverðum verðsveiflum á fjármálamörkuðum næstu misserin og reikna má með að þónokkur tími fari í úrvinnslu mála vegna tímabundinna erfiðleika.

Á síðustu misserum hafa vextir farið lækkandi og er ólíklegt að sú þróun eigi eftir að breytast á næstunni. Þetta lágvaxtaumhverfi kallar á skoðun viðmiða sem notuð eru til að meta skuldbindingar lífeyrissjóðanna, sem nú er 3,5% raunávöxtun. Þá hefur hækkandi lífaldur einnig áhrif á skuldbindingar sjóðanna, en hingað til hafa skuldbindingar verið reiknaðar út frá lífslíkum byggðum á reynslu fortíðar, en ekki spá til framtíðar. Við verðum að vera vakandi yfir þeim þáttum sem hafa áhrif á skuldbindingar sjóðanna því það er ekki gott að lofa einhverju sem ekki er hægt að standa við. Mikilvægt er að vinna hefjist sem fyrst um hvernig við eigum að takast á við á hækkandi lífaldur og lægri ávöxtun.

Ég er sammála þeim aðilum sem hafa talað fyrir að kominn sé tími á heildstæða endurskoðun á lögum um lífeyrissjóði. Lífeyriskerfið okkar er ungt, sjóðirnir eru ólíkir og staða þeirra misjöfn. Það er afar mikilvægt þegar við hefjum þessa vinnu að vandað sé til verka og hún sé unnin í samvinnu við hagaðila.

Hvað er það sem kveikir áhuga og gefur þér drifkraft í starfinu?

Það eru mismunandi þættir. Mér hefur alltaf þótt gaman að vinna, takast á við ólík verkefni og sjá hugmyndir verða að veruleika. Þá er gott samstarfsfólk lykilatriði og það eru forréttindi að hafa fengið að taka þátt í uppbyggingu sjóðsins og vera hluti af þeim öfluga starfshópi sem þar er.