Uppgjör vegna þriðja ársfjórðungs hjá Icelandair Group var birt í Kauphöllinni fyrr í kvöld.

Í uppgjörinu má sjá áframhaldandi áfhrif Covid-19 faraldursins á félagið.

Heildartekjur Icelandair námu 14,1 milljarði króna og lækkuðu um 81% frá síðasta ári. Eigið fé nam 40,7 milljörðum króna í lok fjórðungsins og eiginfjárhlutfall var 26%. Lausafjárstaða félagsins nam 55 milljörðum króna, þar af handbært fé og lausafjársjóðir að fjárhæð 31,5 milljarðar króna.

Fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins lauk í september með 23 milljarða króna hlutafjárútboði, meðal fjárfesta var stærsti lífeyrissjóður landsins, LSR.

Þá kemur fram að tekjur af fraktflutningum hafi aukist um 16% frá síðasta ári. Félagið gerir áfram ráð fyrir lágmarksstarfsemi á næstu vikum líkt og síðustu mánuði.

9 prósent flugáætlun starfrækt

„Kórónuveirufaraldurinn hélt áfram að hafa áhrif á starfsemi Icelandair Group í þriðja ársfjórðungi. Við náðum að draga úr tekjutapi með því að bregðast hratt við og mæta aukinni eftirspurn eftir flugi þegar ferðatakmarkanir í Evrópu voru rýmkaðar tímabundið í sumar. Um leið héldum við áfram að sækja ný verkefni í leigu- og fraktflugi og jukust tekjur af fraktflutningum um 16% á milli ára. Aftur á móti starfræktum við einungis níu prósent flugáætlunar okkar og fjöldi farþega dróst saman um 90% á milli ára, segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.

Þá segir hann að félagið hafi sama tíma nýtt þann sveigjanleika sem félagið býr yfir til að bregðast hratt við breytingum á mörkuðum á hverjum tíma. „Við lögðum við lokahönd á fjárhagslega endurskipulagningu félagsins sem miðaði að því að styrkja samkeppnishæfni þess til framtíðar. Lokahnykkurinn var vel heppnað hlutafjárútboð í september síðastliðnum þar sem við söfnuðum 23 milljörðum króna í nýtt hlutafé. Við erum þakklát fyrir þann mikla stuðning og traust sem fjárfestar og íslenskur almenningur sýndu félaginu með þátttöku sinni í útboðinu."

Við gerum ráð fyrir að starfsemi félagsins verði áfram í lágmarki á næstu vikum. Við höfum hins vegar náð að takmarka útflæði fjármagns og styrkt lausafjárstöðu félagsins til þess að geta komist í gegnum tímabil lágmarksframleiðslu allt fram á árið 2022 ef þörf krefur. Við leggjum þó áherslu á að vera vel undirbúin til að bregðast hratt við um leið og aðstæður í heiminum batna og ferðatakmarkanir á Íslandi verða rýmkaðar. Með fjölbreyttan og breiðan hluthafahóp, sterkan efnahagsreikning, sveigjanlegt leiðakerfi, öfluga innviði og síðast en ekki síst frábært starfsfólk, erum við tilbúin að bregðast hratt við og grípa tækifærin þegar eftirspurn ferðamanna tekur við sér á ný.“

Vefútsending á morgun

Rafrænn kynningarfundur verður haldinn á morgun, þriðjudaginn 27. október klukkan 8:30. Þar munu Bogi Nils Bogason, forstjóri, og Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála, kynna uppgjör þriðja ársfjórðungs og svara spurningum. Vefútsending frá fundinum verður aðgengileg á heimasíðu Icelandair Group, www.icelandairgroup.is