Heildar­fjöldi far­þega í milli­landa­flugi hjá Icelandair var um 11.600 í janúar og dróst saman um 94 prósent á milli ára. Um 8.000 far­þegar flugu til og frá Ís­landi í janúar, en far­þega­fjöldi í tengi­flugi milli Evrópu og Norður Ameríku var um 3.700 sem er nokkuð meira en verið hefur síðustu mánuði. Heildar sæta­fram­boð hjá Icelandair dróst saman um 92 prósent á milli ára í janúar. Þetta kemur fram í mánaðar­legum flutninga­tölum fyrir janúar­mánuð sem Icelandair Group birti í Kaup­höll í dag.

Í til­kynningu frá fé­laginu segir að fjöldi far­þega var þó meiri í janúar en hann var síðustu mánuði fyrir jól sem skýrist af auknum á­huga á flugi til og frá Ís­landi yfir há­tíðirnar. Frakt­flutningar fé­lagsins í janúar voru sam­bæri­legir og á sama tíma í fyrra.

Fjöldi far­þega hjá Air Iceland Connect var um 11.600 í janúar og fækkaði far­þegum um 30% á milli ára. Fram­boð í innan­lands­flugi dróst saman um 22 prósent. Seldir blokk­tímar í leigu­flug­starf­semi fé­lagsins drógust saman um 75 prósent saman­borið við janúar 2020. Flutninga­starf­semi fé­lagsins hefur þó líkt og síðustu mánuði dregist mun minna saman en far­þega­flug. Frakt­flutningar í janúar voru sam­bæri­legir því sem þeir voru á sama tíma í fyrra.

Tekjur af frakflutningum jukust um helming

Í upp­gjöri Icelandair vegna fjórða árs­fjórðungs segir að heildar­tekjur fé­lagsins námu 8,2 milljörðum króna (60,2 milljónum dala) og lækkuðu 81 prósent frá síðasta ári. Tekjur af frakt­flutningum jukust um 48 prósent í fjórðungnum á milli ára.

EBIT var nei­kvætt um 8,2 milljarða króna (60,2 milljónir dala) á fjórða árs­fjórðungi saman­borið við nei­kvætt EBIT um 5,0 milljarða króna (36,7 milljónir dala) á fjórða árs­fjórðungi 2019. Tap ársins 2020 í heild nam 51,0 milljörðum króna (376,2 milljónum dala) saman­borið við tap að fjár­hæð 7,8 milljarðar króna (57,8 milljónir dala) á árinu 2019.

Eigið fé nam 29,7 milljörðum króna (232,8 milljón dala) í lok árs og eigin­fjár­hlut­fall lækkaði úr 29 í 25 prósent frá fyrra ári, leið­rétt fyrir tíma­bundnum á­hrifum á­skriftar­réttinda.

Lausa­fjár­staða fé­lagsins nam 42,3 milljörðum króna (331,4 milljón dala) í lok árs 2020, þar af hand­bært fé og lausa­fjár­sjóðir að fjár­hæð 21,6 milljarðar króna (159,4 milljónir dala). Eftir­spurn í fyrsta árs­fjórðungi er enn lítil vegna stöðu heims­far­aldursins á lykil­mörkuðum.

Gert ráð fyrir að flug fari að aukast frá og með öðrum árs­fjórðungi. Kyrr­setningu Boeing 737 MAX vélanna hefur verið af­létt og verða þær teknar í rekstur á vor­mánuðum.