Árið 2018 námu heildaratvinnutekjur Íslendinga 1.316 milljörðum króna. Það er rúmlega fimm prósenta aukning sé miðað við raunvirði árið 2017. Þetta kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar um þróun atvinnutekna eftir atvinnugreinum og landshlutum á árunum 2008 til 2018.

Atvinnutekjur jukust í öllum landshlutum á milli áranna 2017 og 2018 en mest varð aukningin á Suðurnesjum eða um tíu prósent. Þá hækkun má rekja til atvinnugreina í ferðaþjónustu. Minnst var hækkunin á Norðurlandi eystra eða þrjú prósent. Á höfuðborgarsvæðinu var hækkunin 4,7 prósent.

Stærstu atvinnugreinarnar mældar í atvinnutekjum árið 2018 voru heilbrigðis- og ferðaþjónusta með tæpa 139 milljarða króna, fræðslustarfsemi með 124 milljarða, iðnaður með 120 milljarða og flutningar og geymsla með 107 milljarða króna.

Mesta aukningin á atvinnutekjum á tíu ára tímabili frá 2008-2018 var í atvinnugreinum tengdum ferðaþjónustu. Atvinnutekjur í flutningum og geymslu jukust um 49 milljarða eða 84 prósent og í gistingu og veitingum um 38,5 milljarða eða 151 prósent.

Samdráttur varð á atvinnutekjum í tveimur greinum á sama tímabili. Atvinnutekjur af fjármála- og vátryggingastarfsemi lækkuðu um 26 milljarða og af fiskveiðum um 6,6 milljarða.