Lyfja hefur ekki fengið svör frá heilbrigðisráðuneytinu um hvort lyfjaverslanakeðjunni sé heimilt að selja Covid-19 hraðpróf sem samþykkt hafa verið af heilbrigðisyfirvöldum í Þýsklandi. Fáist jákvæð svör geti Lyfja, sem fyrst óskaði eftir heimild til að selja hraðpróf í maí, hafið sölu á prófunum innan skamms. Þetta segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju, í samtali við Fréttablaðið.

Slík hraðpróf tíðkast víða í Evrópu og hefur til dæmis verið gerð krafa um það í Austurríki að þeir sem fari á veitingahús eða ýmsa aðra opinbera staði sýni neikvæða niðurstöður úr Covid-19 hraðprófi. Stjórnvöld gefa landsmönnum nokkur hraðpróf í viku hverri.

Sigríður Margrét segir að hraðpróf geti auðveldað fólki að lifa með heimsfaraldrinum. Mörgum myndi líða betur með að fara á ýmis mannamót, svo sem vinnufundi eða fjölskylduboð, ef þeir sem væru samankomnir hefðu undirgengist hraðpróf.

Heimaprófin sem Lyfja hefur í hyggju að selja byggja á sýnatöku stroku úr nefholi. Sigríður Margrét segir að næmni þeirra sé 95,6 prósent en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mæli með að næmnin sé yfir 80 prósent. „Að sjálfsögðu er ekki ætlast til þess að fólk sem sýni einkenni um Covid-19 smit taki prófin heldur bóki tíma hjá Heilsuveru og fari í hefðbundið próf,“ segir hún.

Að hennar sögn er hægt að bóka hraðpróf hjá Heilsugæslunni en þar kostar þjónustan um fjögur þúsund krónur en tæplega sjö þúsund krónur hjá einkaaðila. Hraðprófin sem Lyfja hefur hug á að bjóða upp á séu umtalsvert ódýrari enda er um sjálfspróf að ræða.

Sigríður Margrét segir að Lyfja muni ekki selja hraðprófin fyrr en svör hafi fengist frá ráðuneytinu til að ganga úr skugga um að salan sé í samræmi við lög og reglur hér á landi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði við Vísi í gær að það hafi verið til skoðunar að taka hraðpróf í gildi aðspurður um yfirlýsingu Samtaka atvinnulífsins. Í henni kom fram að það heilu bekkina eða árganga í skólum í sóttkví og jafnvel foreldra barna greinist einn smitaður gangi ekki til lengdar.