Hulda Rós Hákonardóttir er innkaupastjóri og einn eigenda Ger verslana ehf. sem starfrækja verslanirnar Húsgagnahöllina, Betra bak, Dorma og Ger heildsölu. Hulda hefur stundað jóga í 15 ár og hún hlakkar til að fara í vinnuna á hverjum morgni.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin á undanförnum misserum?

Það verkefni að koma heildsölunni okkar á fót. Við höfum verið að vinna mikið undanfarin ár með ýmsum aðilum, eins og verktökum, við að setja upp sýningaíbúðir fyrir fasteignasölur. Einnig höfum við standsett íbúðir fyrir félög sem leigja þær svo út en í slíkum tilfellum getum við boðið upp á allt sem til þarf - rúm og svefnherbergishúsgögn, sófa, stóla og húsgögn sem tilheyra stofu og borðstofu og einnig alla þá smávöru og leirtau sem vantar. Seljum einnig til hótela og veitingastaða, bæði stærri vörur og svo matarstell og glös. Við erum umboðsaðilar fyrir dönsku vörurmerkin Broste Copenhagen og Nordal en þau bjóða upp á mikið úrval af fallegum og vönduðum heimilisvörum. Starfsemin okkar hefur útvíkkast gríðarlega í þessum geira undanfarið og við stefnum á að stækka þann part starfseminnar enn meira á komandi misserum. Þetta er auðveld og þægileg lausn fyrir okkar viðskiptavini – það er að geta fengið allt sem til þarf á einum stað.Vefverslunin fyrir Ger heildsölu er í vinnslu og við stefnum á að opna hana fljótlega en þá geta fyrirtæki nálgast vörurúrvalið og verslað þar á auðveldan og þægilegan máta.

Hvaða verkefni eru fram undan?

Það eru sem betur fer alltaf endalaus verkefni og þannig vil ég hafa það. Ætli það sé ekki mikilvægast að halda vel utan um þau verkefni sem eru í gangi og móta sig aftur í síbreytilegu rekstrarumhverfinu. Síðustu tvö ár hafa verið krefjandi að því leyti að rekstrarumhverfið breyttist mikið og finna þurfti nýjar lausnir til þess að halda öllu gangandi, bæði fólkinu okkar og sölunni.

Hvað þykir þér skemmtilegast við starfið þitt?

Ég er svo lánsöm að vakna á hverjum morgni og hlakka til að fara í vinnuna. Ég er svona allt í öllu hérna, skipti mér af nánast öllu og starfið mitt er mjög margbreytilegt. Ég sé um að panta alla smávöru fyrir verslanirnar og halda utan um birgðir og innkaup. Inn í það blandast markaðsmálin og allt sem því tilheyrir. Það er því nauðsynlegt að vera alltaf á tánum og fylgjast vel með því sem er að gerast í kringum okkur. Svo er fólkið hérna dásamlegt, starfsandinn er mjög góður og við erum í raun eins og stór fjölskylda.

Ef þú þyrftir að velja annan starfsframa, hvað yrði fyrir valinu?

Ég fór í jógakennaranám fyrir nokkrum árum en ég hef stundað jóga í 15 ár. Það er mitt zen ef svo má að orði komast og þar næ ég að núllstilla mig í amstri dagsins. Er nokkuð viss um að ef ég væri ekki í rekstri þá myndi ég snúa mér mun meira að því aftur. Ég kenndi jóga í nokkur ár eftir námið en með vinnu og fjölskyldu var það aðeins of mikið þó svo að það hafi gefið mér hugarró. Jógað er algjör andstæða við það sem ég geri dags daglega í vinnunni og gefur svo ótrúlega mikið, bæði orku og styrk.

Hver er þín uppáhaldsborg?

Það er erfitt að nefna eina borg en ég elska París og finnst alveg dásamlegt að koma þangað þar sem borgin býður upp á svo ótal margt. Eins finnst mér Barcelona æðisleg en ég bjó þar í tæp tvör ár þegar ég var rúmlega tvítug og lærði spænsku og ferðamálafræði. Þessar tvær standa alltaf upp úr hjá mér.

Helstu drættir

Nám: MBA meistaranám í viðskiptum frá Hí.

Störf: Innkaupastjóri og einn eigenda Ger verslana ehf. sem starfrækja verslanirnar Húsgagnahöllina, Betra bak, Dorma og Ger heildsölu. Starfaði þar áður við rekstur tískuvöruverslananna Hugo Boss og Sand.

Fjölskylduhagir: Gift Agli Reynissyni eiganda og framkvæmdastjóra Ger verslana og saman eigum við fjögur börn, Heiði Björgu 18 ára, Katý Rósu og Reyni Leó 16 ára og Róbert Egil 14 ára.