Nýsköpunarfyrirtækið Ankra er með vörumerkið Feel Iceland sem sérhæfir sig í hágæða kollagen prótíni sem unnið er úr íslensku fiskroði.

Hrönn Margrét Magnúsdóttir, stofnandi Ankra, segir að markmið fyrirtækisins hafi verið skýrt frá upphafi. Það er að bjóða upp á besta kollagen sem framleitt hefur verið úr besta hráefni sem fyrirfinnst.

„Við fengum til liðs við okkur fyrrverandi starfsmann Kerecis sem var sérfræðingur í kollageni þegar við hófum vöruþróun. Við höfum svo unnið með lækni varðandi virkni og rannsóknir á kollageni en þeim hefur fjölgað gífurlega síðustu ár sem er mjög jákvætt. Við vinnum svo með einum reyndasta kollagenframleiðanda í heimi en gæðin eru slík hjá þeim að þeir framleiða fyrir lyfjafyrirtæki. Þeir framleiða svo sérstaklega fyrir okkur kollagen úr besta hráefninu, íslensku fiskroði. Öll önnur framleiðsla á sér svo stað á Grenivík.“

Hrönn segir að það hafi opnað margar dyr að hafa aðgang að kollageni í þeim gæðum sem fyrirtækið er að vinna með þar sem auðvelt er að nota það í drykki og matvæli. Margir kannist eflaust við drykkinn Collab en það var hugmynd frá Ankra að gera slíkan drykk.

„Við fengum Ölgerðina til þess að vinna það með okkur og úr varð þetta öfluga samstarfsverkefni lítils frumkvöðlafyrirtækis og stærsta drykkjaframleiðanda landsins.“

Að sögn Hrannar kviknaði hugmyndin að Ankra út frá því að hún taldi nytsamlegt að reyna að nýta betur aukaafurðir íslenska fisksins.

„Tengdafaðir minn er skipstjóri að vestan og eftir að hafa fylgst með hvað varð um fiskinn sem var veiddur langaði mig að reyna að auka verðmæti hans með því að þróa hágæða vörur úr fisknum og nýta betur það sem var hent.“

Hún leigði sér borð í frumkvöðlasetri Sjávarklasans og kynntist þar Kristínu Ýri Pétursdóttur, meðstofnanda Ankra, sem var þá í sumarstarfi fyrir Sjávarklasann.„Þar lærði ég að það væri hægt að nýta fiskroðið til kollagenframleiðslu en á þessum tíma var íslensku fiskroði oft hent með tilheyrandi kostnaði, það er ekki raunin í dag og verð á fiskroði hefur hækkað mikið.“

Á þeim tíma sem Ankra var stofnað var kollagen lítið þekkt sem fæðubótarefni en Hrönn segir að japanskar konur hafi tekið það inn árum saman sér til heilsubótar og fyrir húð og hár. Í dag sé kollagen orðið mjög eftirsótt um allan heim þar sem sífellt fleiri rannsóknir og ótal reynslusögur sýni fram á virkni þess.Hrönn segir að vörur fyrirtækisins hafi fengið gífurlega góðar viðtökur.

„Heilt yfir hefur gengið nokkuð vel en vegferð frumkvöðla er svo sannarlega ekki rósum stráð. En við eigum góða að og það er ómetanlegt að geta leitað í reynslubanka stjórnar. Við höfum náð að stýra skútunni farsællega og erum að teikna upp leiðina sem við ætlum að sigla eftir og stefnum nú á að sigla hratt og örugglega áfram.“

Hrönn segir að Ankra sé að búa sig undir að fara í útrás.

„Við stefnum hátt og við stefnum út í heim. Við höfum nýtt mikinn tíma í undirbúning fyrir þetta stóra skref og erum aðeins byrjuð að dýfa tánum í djúpu laugina. Vörurnar okkar eru til dæmis seldar í Magasin du Nord í Danmörku, Pantechnicon í London og á nokkrum sérhæfðum læknastofum í Bandaríkjunum.“

Hún bætir við að hún finni fyrir miklum áhuga á vörunum erlendis en það sé aftur á móti vandasamt að taka það skref og að mörgu sé að huga.

„Það eru spennandi og krefjandi tímar fram undan en við erum með frábært teymi sem ég hef fulla trú á að muni koma okkur þangað sem við ætlum okkur.“

Hrönn segir að fyrirtækið stefni á að kynna ýmsar nýjungar á næstu misserum.„Við höfum verið í mikilli vöruþróun undanfarið og höfum sótt þekkingu til erlendra reynslubolta sem hafa unnið fyrir mjög þekkt alþjóðleg vörumerki. Það er mikið af spennandi hlutum að gerast hjá okkur sem við munum kynna á næsta ári.“