Þak á hámarksgreiðslubyrði mun aðallega koma til með að hafa áhrif á þá tekjuhærri. Þetta kemur fram í nýrri greiningu frá Húsnæðis og mannvirkjastofnun.

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans ákvað að setja reglur um hámark greiðslubyrðar af nýjum lánum. Greint var frá málinu í Fréttablaðinu í morgun. Nýju reglurnar takmarka greiðslubyrði nýrra lána í 35 prósent af heildarráðstöfunartekjum en 40 prósent hjá fyrstu kaupendum. Þetta mun gera það að verkum að mörg heimili munu ekki koma til með að getað tekið jafnhá lán og áður. Breytingarnar munu koma til með að hafa mismikiláhrif á lántakendur en í mörgum tilfellum er greiðslugeta lántakenda undir 35 prósentum samkvæmt greiðslumati bankanna og því ekki mögulegt að taka hærra lán.

Taflan að neðan er tekin saman af húsnæðis og mannvirkjastofnun og sýnir hvernig þessar breytingar geta haft áhrif á hámarkslán hjá lántakendum miðað við mismunandi forsendur. Taflan sýnir áætlaða greiðslugetu samkvæmt greiðslumati miðað við mismunandi forsendur um fjölda barna og fjölda bifreiða. Líkt og sjá má eru þessar reglur frekar takmarkandi hjá tekjuhærri heimilum en þeim tekjulægri. Þá eru þær síður bindandi eftir því sem að fjöldi barna eða bíla eykst.

Heimild: Húsnæðis og mannvirkjastofnun

Í töflunni er ekki gert ráð fyrir skuldum svo sem bílalánum eða námslánum en þær dragast frá ráðstöfunartekjum. Ljóst er að nýjar reglur munu takmarka getu heimilanna til skuldsetningar og stemma þannig stigu við hækkandi fasteignaverði. Seðlabankinn hefur áður ráðist í aðgerðir sem miða að því að kæla fasteignamarkaðinn. Í lok júní tilkynnti hann um lækkun hámarksveðsetningarhlutfalls úr 85 prósent í 80 prósent fyrir aðra en fyrstu kaupendur. SÍ hefur auk þess hækkað stýrivexti í tvígang á seinustu mánuðum.