Lyfja hefur hafið sölu á DNA sjálfsprófum í samvinnu við alþjóðlega fyrirtækið MyHeritage sem gera fólki kleift að kanna bakgrunn sinn og meta áhættu á ákveðnum sjúkdómum með einföldum hætti.

Um er að ræða tvenns konar próf. Annað prófið segir til um uppruna og hjálpar fólki að kanna ættfræðilegan bakgrunn sinn. Hitt prófið, DNA and Health, segir til um uppruna og genatíska áhættu þess að fólk þrói með sér ákveðin heilsufarsvandamál eða sjúkdóma. Niðurstöðurnar fela í sér áhættumat fyrir hjartasjúkdóma, brjóstakrabbamein, Alzheimer og 16 öðrum sjúkdómum.

Hægt er að taka prófin á einfaldan hátt heiman frá sér með stroki innan úr kinn sem tekur um tvær mínútur. Niðurstöðurnar birtast svo hverjum og einum notanda innan fjögurra vikna.

Heilsuskýrslur sem fylgja niðurstöðum prófsins segja ekki til um hvort fólk hafi eða muni þróa með sér sjúkdóma, þær meta aðeins genatengda áhættu á sjúkdómum. Niðurstöðurnar taka ekki til greina þætti sem hafa áhrif á sjúkdóma eins og umhverfi, lífsstíl, aldur og fjölskyldusögu.

Niðurstöður eru birtar viðskiptavinum á ,,mínum síðum” á vefsvæði MyHeritage en viðskiptavinir eiga gögnin og geta eytt þeim hvenær sem er. Öll gögn eru vel varin með margföldum lögum af dulkóða og geymd á öruggum netþjóni.

„Við erum afar ánægð að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á þessa nýjung. Þó áhættumatsskýrslan segi ekki til um hvort fólk sé með ákveðinn sjúkdóm né hvort viðkomandi muni þróa hann með sér þá gerir matið fólki kleift að bregðast við með breyttum lífsstíl ef þörf er á og draga þannig úr líkunum. Þá er einnig ánægjulegt að bjóða upp á prófin í samstarfi við MyHeritage þar sem gagnaöryggi og trúnaður skiptir miklu máli.“ segir Sigfríð Eik Arnardóttir, sviðsstjóri vöru-, birgða og framleiðslu hjá Lyfju í tilkynningu.

DNA sjálfsprófin eru eingöngu til sölu í verslun Lyfju á Smáratorgi og í vefverslun Lyfju eins og er en stefnt er að fjölga sölustöðum og bæta enn frekar úrval sjálfsprófa.

Sigfríð Eik Arnardóttir, sviðsstjóri vöru-, birgða- og framleiðslu hjá Lyfju.
Fréttablaðið/aðsend