Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd, segir það mikilvægt að endurskipuleggja fjármálakerfið á Íslandi samhliða sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Hann er ekki vera andvígur sölunni en segir að það hefði átt að skoða möguleikann á að selja bankann norrænum viðskiptabanka til að auka samkeppni á Íslandi.
„Íslandsbanki er auðvitað mjög verðmæt eign ríkisins og þess vegna er mikilvægt að samfélagið fái sem mest fyrir bankann,“ segir Sigmundur í samtali við Fréttablaðið.
„Það var aldrei ætlunin að ríkið ætti hann til frambúðar en samt skiptir öllu máli hvenær og hvernig verður ráðist í að selja þennan banka eða hugsanlega afhenda landsmönnum hlut í honum eins og við töluðum um á sínum tíma fyrir kosningar,“ bætir hann við.
Að mati Sigmundar ætti aðalatriðið að vera endurskipulagning fjármálakerfisins samhliða sölunni. „Því það eru gríðarleg verðmæti fyrir samfélagið í því fólgin ef að tekst vel upp við að endurskipuleggja fjármálakerfið og það gefst ekki betra tækifæri til þess en eftir að ríkið lenti með þetta í fanginu, ef svo má segja.“
Samkeppni mikilvæg fyrir íslensk fyrirtæki
Hann bendir á að Miðflokkurinn hafi verið með tillögu um hvernig mætti nýta þessa stöðu í endurskipulagningu fyrir síðustu kosningar.
„Þá var reyndar markmiðið með Íslandsbanka að selja hann erlendum viðskiptabanka helst, t.d. norrænum, til að fá aukna samkeppni á markaðinn. Það hefur lítið sem ekkert gerst í slíku að undanförnu en það gerist ekki að sjálfum sér. Það þarf þátttöku stjórnvalda til að koma slíku á,“ segir Sigmundur og bæti við að það sé mikilvægt fyrir íslenskt fyrirtæki og neytendur að fá aukna samkeppni inn á markaðinn.
Sigmundur segist ekki viss um hvort þetta sé rétti tíminn til að selja bankann þar sem Ísland er í dýpstu efnahagslegri niðursveiflu síðustu hundrað ára.
„Bankinn er með um 20% af útlánasafni sínu í frystingu og það er mikill óvissa um framhaldið,“ segir Sigmundur og bætir við.
Honum finnst sérstakt hvað þetta ber brátt að. Spurður um hvort það hafi ekki legið fyrir lengi að ríkið ætlaði að selja hlut sinn í Íslandsbanka, segir hann svo vera.
„Þetta er vissulega búið að vera í fjárlagafrumvarpinu í nokkur ár. Ég hef gert athugasemd við það í þinginu að þessi heimild hafi verið til staðar án þess að menn hafi hugmynd um hvernig þetta átti að gerast en það er mjög margt búið að breytast síðan 2012 ekki síst það að ríkið eignaðist allan bankann,“ segir Sigmundur.
Segir sérstakt að hagnaður af sölunni fari í Borgarlínu
Sigmundur segist skilja ástæðu stjórnvalda fyrir því að nauðsynlegt sé að nýta hagnaðinn af sölunni í að borga niður skuldir en furðar sig hins vegar á því að það eigi að eyða hluta af því fé í Borgarlínuna.
„Við fáum að heyra þau rök að ríkið sé búið að eyða miklum peningum og auka skuldsetningu og þetta verður smá saman liður í því að takast á við þær skuldir. Á sama tíma er nýbúið að samþykkja frumvarp frá ríkisstjórninni þar sem gert er ráð fyrir því að hagnaður af sölu Íslandsbanka geti farið í Borgarlínuna. Menn hafa efni á því að eyða fimmtíu milljörðum í fyrsta hluta af verkefni sem verður eilífðarverkefni, sem er Borgarlínan, og tug milljörðum í önnur verkefni. Þá eru menn enn á flæðiskeri staddir.“
Hann ítrekar hins vegar að lokum að telji alls ekki að ríkið eigi að eiga Íslandsbanka til frambúðar.
Lagaumhverfið allt annað nú en fyrir efnahagshrunið
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna og nefndarmaður í fjárlaganefnd, segir að lagaumhverfið í sé allt annað en það var fyrir hrun þegar bankarnir voru einkavæddir.
Fjárlaganefnd hefur verið að fjalla um málið í vikunni og hafa fengið til sín ýmsa sérfræðinga til þess að fara yfir söluna.
„Við fengum Seðlabankann í gær sem sinnir auðvitað eftirlitshlutverki. Þeir fóru yfir lagarammann og hvernig hann hefur verið styrktur eftir hrun. Hvað varðar allt eftirlit með sölunni þá er það á allt öðrum stað og miklu þéttari en var.“
„Það hefur verið ýmislegt rætt hvað varðar þessa tímasetningu en mér hugnast þetta nokkuð vel. Hlutafjárútboðið hjá Icelandair til dæmis tókst vel og þetta hefur verið á stefnu ríkisstjórnarinnar og þetta hefur verið í stefnu Vinstri grænna að minnka hlut okkar í bönkunum,“ segir Steinunn.
Hún segir það líka mikilvægt hvaða leið verður farinn. „Það verður allt upp borðinu hvað varðar skráningu á hverjir eru að kaupa og ef hlutur einhvers fer yfir 10% eru ríkar heimildir til að kanna þá,“ segir Steinunn.
„Ég hef í gegnum nefndarvinnuna styrkst í þeirri trú að þetta sé í góðum farveg,“ segir hún að lokum.

Nauðsynlegt að minnka umsvif ríkisins
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar og fyrsti varaformaður í efnahags- og viðskiptanefnd, segir að mikilvægt að draga úr umsvifum ríkisins á fjármálamörkuðum en hins vegar þurfi að stíga varlega til jarðar.
Efnahags og viðskiptanefnd hefur í vikunni fengið gesti frá Seðlabankanum, Bankasýslunni, Íslandsbanka og Samkeppniseftirlitinu til þess að fara yfir söluna.
„Menn eru bara að velta fyrir sér hvað er rétt að gera í stöðunni. Er þetta rétti tíminn? Hvað á að selja mikið? Og hvaða áhrif hefur þetta á fjármálamarkaðinn? Svo eru auðvitað þessar almennu hugleiðingar um hversu umsvifamikið ríkið á að vera á svona markaði“
Hann bendir á að Ísland sker sig úr í Evrópu hvað varðar umsvif ríkisins á fjármálamarkaði. „Auðvitað duttu þessir bankar í fangið á ríkinu í hruninu þannig það var nú ekki eins og ríkið væri að sækjast eftir því.“
„Svo er líka hugleiðingar um það að við höfum áður einkavætt banka og það fór ekki vel. Á móti er þá bent á að það sé búið að breyta regluverkinu svo mikið að það séu litlar líkur á því,“
Hann segir að afstaða Viðreisnar sé skýr í þessum efnum um að ríkið eigi ekki að vera svona umsvifamikið á þessum markaði. „Það liggur fyrir og við erum talsmenn þess að ríkið dragi sig út af þessum markaði.“
Hann er segir að spurningin sé bara um hvenær rétti tíminn er. „Menn geta samt líka beðið til eilífðarnóns því þeir halda það verði betra seinna,“ segir hann og bætir við það að skiptir mestu máli að það fái gott verð fyrir hlutinn og eignarhaldið verð með eðlilegum hætti.
