Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, for­maður Mið­flokksins og nefndar­maður í efna­hags- og við­skipta­nefnd, segir það mikil­vægt að endur­skipu­leggja fjár­mála­kerfið á Ís­landi sam­hliða sölu á hlut ríkisins í Ís­lands­banka. Hann er ekki vera and­vígur sölunni en segir að það hefði átt að skoða mögu­leikann á að selja bankann nor­rænum við­skipta­banka til að auka sam­keppni á Ís­landi.

„Ís­lands­banki er auð­vitað mjög verð­mæt eign ríkisins og þess vegna er mikil­vægt að sam­fé­lagið fái sem mest fyrir bankann,“ segir Sig­mundur í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Það var aldrei ætlunin að ríkið ætti hann til fram­búðar en samt skiptir öllu máli hve­nær og hvernig verður ráðist í að selja þennan banka eða hugsan­lega af­henda lands­mönnum hlut í honum eins og við töluðum um á sínum tíma fyrir kosningar,“ bætir hann við.

Að mati Sig­mundar ætti aðal­at­riðið að vera endur­skipu­lagning fjár­mála­kerfisins sam­hliða sölunni. „Því það eru gríðar­leg verð­mæti fyrir sam­fé­lagið í því fólgin ef að tekst vel upp við að endur­skipu­leggja fjár­mála­kerfið og það gefst ekki betra tæki­færi til þess en eftir að ríkið lenti með þetta í fanginu, ef svo má segja.“

Samkeppni mikilvæg fyrir íslensk fyrirtæki

Hann bendir á að Mið­flokkurinn hafi verið með til­lögu um hvernig mætti nýta þessa stöðu í endur­skipu­lagningu fyrir síðustu kosningar.

„Þá var reyndar mark­miðið með Ís­lands­banka að selja hann er­lendum við­skipta­banka helst, t.d. nor­rænum, til að fá aukna sam­keppni á markaðinn. Það hefur lítið sem ekkert gerst í slíku að undan­förnu en það gerist ekki að sjálfum sér. Það þarf þátt­töku stjórn­valda til að koma slíku á,“ segir Sig­mundur og bæti við að það sé mikil­vægt fyrir ís­lenskt fyrir­tæki og neyt­endur að fá aukna sam­keppni inn á markaðinn.

Sig­mu­ndur segist ekki viss um hvort þetta sé rétti tíminn til að selja bankann þar sem Ís­land er í dýpstu efna­hags­legri niður­sveiflu síðustu hundrað ára.

„Bankinn er með um 20% af út­lána­safni sínu í frystingu og það er mikill ó­vissa um fram­haldið,“ segir Sig­mundur og bætir við.

Honum finnst sér­stakt hvað þetta ber brátt að. Spurður um hvort það hafi ekki legið fyrir lengi að ríkið ætlaði að selja hlut sinn í Ís­lands­banka, segir hann svo vera.

„Þetta er vissu­lega búið að vera í fjár­laga­frum­varpinu í nokkur ár. Ég hef gert at­huga­semd við það í þinginu að þessi heimild hafi verið til staðar án þess að menn hafi hug­mynd um hvernig þetta átti að gerast en það er mjög margt búið að breytast síðan 2012 ekki síst það að ríkið eignaðist allan bankann,“ segir Sig­mundur.

Segir sérstakt að hagnaður af sölunni fari í Borgarlínu

Sigmundur segist skilja ástæðu stjórnvalda fyrir því að nauðsynlegt sé að nýta hagnaðinn af sölunni í að borga niður skuldir en furðar sig hins vegar á því að það eigi að eyða hluta af því fé í Borgarlínuna.

„Við fáum að heyra þau rök að ríkið sé búið að eyða miklum peningum og auka skuld­setningu og þetta verður smá saman liður í því að takast á við þær skuldir. Á sama tíma er ný­búið að sam­þykkja frum­varp frá ríkis­stjórninni þar sem gert er ráð fyrir því að hagnaður af sölu Ís­lands­banka geti farið í Borgar­línuna. Menn hafa efni á því að eyða fimm­tíu milljörðum í fyrsta hluta af verk­efni sem verður ei­lífðar­verk­efni, sem er Borgar­línan, og tug milljörðum í önnur verk­efni. Þá eru menn enn á flæði­s­keri staddir.“

Hann í­trekar hins vegar að lokum að telji alls ekki að ríkið eigi að eiga Ís­lands­banka til fram­búðar.

Laga­umhverfið allt annað nú en fyrir efnahagshrunið

Steinunn Þóra Árna­dóttir, þing­maður Vinstri grænna og nefndarmaður í fjár­laga­nefnd, segir að lagaumhverfið í sé allt annað en það var fyrir hrun þegar bankarnir voru einkavæddir.

Fjár­laga­nefnd hefur verið að fjalla um málið í vikunni og hafa fengið til sín ýmsa sérfræðinga til þess að fara yfir söluna.

„Við fengum Seðla­bankann í gær sem sinnir auð­vitað eftir­lits­hlut­verki. Þeir fóru yfir laga­rammann og hvernig hann hefur verið styrktur eftir hrun. Hvað varðar allt eftir­lit með sölunni þá er það á allt öðrum stað og miklu þéttari en var.“

„Það hefur verið ýmis­legt rætt hvað varðar þessa tíma­setningu en mér hugnast þetta nokkuð vel. Hluta­fjár­út­boðið hjá Icelandair til dæmis tókst vel og þetta hefur verið á stefnu ríkis­stjórnarinnar og þetta hefur verið í stefnu Vinstri grænna að minnka hlut okkar í bönkunum,“ segir Steinunn.

Hún segir það líka mikil­vægt hvaða leið verður farinn. „Það verður allt upp borðinu hvað varðar skráningu á hverjir eru að kaupa og ef hlutur ein­hvers fer yfir 10% eru ríkar heimildir til að kanna þá,“ segir Steinunn.

„Ég hef í gegnum nefndar­vinnuna styrkst í þeirri trú að þetta sé í góðum far­veg,“ segir hún að lokum.

Steinunn Þóra Árnadóttir, segir lagaumhverfið vera allt annað en fyrir hrun.
Fréttablaðið/Vilhelm Gunnarsson

Nauðsynlegt að minnka umsvif ríkisins

Jón Stein­dór Valdimars­son, þing­maður Við­reisnar og fyrsti vara­for­maður í efna­hags- og við­skipta­nefnd, segir að mikilvægt að draga úr umsvifum ríkisins á fjármálamörkuðum en hins vegar þurfi að stíga varlega til jarðar.

Efnahags og viðskiptanefnd hefur í vikunni fengið gesti frá Seðla­bankanum, Banka­sýslunni, Ís­lands­banka og Sam­keppnis­eftir­litinu til þess að fara yfir söluna.

„Menn eru bara að velta fyrir sér hvað er rétt að gera í stöðunni. Er þetta rétti tíminn? Hvað á að selja mikið? Og hvaða á­hrif hefur þetta á fjár­mála­markaðinn? Svo eru auð­vitað þessar al­mennu hug­leiðingar um hversu um­svifa­mikið ríkið á að vera á svona markaði“

Hann bendir á að Ís­land sker sig úr í Evrópu hvað varðar um­svif ríkisins á fjár­mála­markaði. „Auð­vitað duttu þessir bankar í fangið á ríkinu í hruninu þannig það var nú ekki eins og ríkið væri að sækjast eftir því.“

„Svo er líka hug­leiðingar um það að við höfum áður einka­vætt banka og það fór ekki vel. Á móti er þá bent á að það sé búið að breyta reglu­verkinu svo mikið að það séu litlar líkur á því,“

Hann segir að af­staða Við­reisnar sé skýr í þessum efnum um að ríkið eigi ekki að vera svona um­svifa­mikið á þessum markaði. „Það liggur fyrir og við erum tals­menn þess að ríkið dragi sig út af þessum markaði.“

Hann er segir að spurningin sé bara um hve­nær rétti tíminn er. „Menn geta samt líka beðið til ei­lífðar­nóns því þeir halda það verði betra seinna,“ segir hann og bætir við það að skiptir mestu máli að það fái gott verð fyrir hlutinn og eignar­haldið verð með eðli­legum hætti.

Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar.
Fréttablaðið/Anton Brink