Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins og Lárus L. Blöndal stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins sátu fyrir svörum hjá fjárlaganefnd Alþingis í morgun.
Þingmenn fjárlaganefndar beindu flestum spurningum sínum að minni fjárfestum og hvers vegna þeim var leyft að kaupa á genginu 117 krónum en Jón Gunnar sagðist sannfærður um að hefði hlutur ríkisins verið seldur á hæsta mögulega verði hefðu færri keypt og megintilgangurinn um að ná sem hæsta verði fyrir hlut ríkisins ekki náðst.
„Einhverjir hafa sagt að þeir hafi verið tilbúnir að kaupa á genginu 122 krónum. Ég held að útboðið hefði verið mun lægra hefðum við selt á 122 krónum. Það verður alltaf að hugsa um verð og magn í samhengi. Eins og við höfum bent á verður að passa það að útboðið ofgeri ekki markaðinum og hefur neikvæð þróun á hlutabréfaverð í bankanum sjálfum og það tókst þrátt fyrir að við öfluðum 50 milljarða króna,“ sagði Jón Gunnar.
„Það hefði haft skelfilegar afleiðingar í för með sér hefðum við hækkað verðið vegna þess að þá hefði stór hluti tilboðsgjafa getað dottið út. Hefði það spurst út þá hefðu aðrir dregið í land og útboðið hefði misheppnast. Við held ég teygðum okkur eins langt og við gátum.“
„Við leitum alltaf að markaðsverði en markaðsverð þarf ekki endilega að vera hæsta verð. Það getur vel verið að einhver boðið hæsta verð en hann er mjög skuldsettur og skammtímafjárfestir opg svo framvegis. Þetta er allt mat sem við og okkar söluráðgjafar þurfum að ráðast í,“ bætti hann við.
Mikilvægt að hafa skammtímafjárfesta
Bankasýslan og söluráðgjafar sáu um mat á því hvort fjárfestar voru taldir kvikir eða ekki og sagði Jón Gunnar það alltaf huglægt mat. Þar kæmi inn reynsla, viðskiptasaga og svo mat söluráðgjafa sem þekkja sína viðskiptavini.
„En við verðum alltaf að hafa þessa fjárfesta í bland við langtímafjárfesta til þess að markaðsverð myndist á markaði en það er skýrt í ákvörðun ráðherra að þegar það kemur að skerðingu á að skerða skammtímafjárfesta meira en langtímafjárfesta,“ sagði Jón Gunnar.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndarinnar, tók fram að henni hugnaðist ekki að fara aftur í útboð með tilboðsfyrirkomulagi og var Jón Gunnar ósammála því.
„Varðandi fullyrðinguna um að við eigum ekki að ráðast í tilboðsfyrirkomulag þá verð ég að vera ósammála vegna þess að með þessari skoðun sem hefur átt sér stað núna þá væntanlega eykst þekking almennings og allra sem koma að framkvæmd sölumeðferðar. Hún hefur aukist gríðarlega vegna skoðunar eftir á sem er bara hjálplegt. Ég bendi líka á að þetta er algengasta sölumeðferðin við að selja eignarhluti í félögum í Evrópu og að lokum vil ég benda á að aðrar aðferðir hafa sýnt sig að þær ná ekki markmiði um hæsta verð,“ sagði Jón Gunnar og bætti við að þar á hann við þegar selt er á fullu markaðsverði.
Hann benti síðan á að frávik í tilboðsfyrirkomulaginu hafi verið mun minni en þekkist erlendis og vísaði í minnisblaði Bankasýslunnar sem var birt á vef Alþingis í gær.

Tveir fjárfestar taldir of kvikir
Í minnisblaðinu kom einnig fram að það hafi komið Bankasýslunni að óvart hversu mörg lág tilboð höfðu borist. Þá kom einnig fram að tveim hæfum fjárfestum hefðu verið meinað að kaupa í útboðinu.
Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði um hvort þessi aðilar væru eitthvað kvikari en aðrir innlendir aðilar sem fengu að kaupa og hversu kvikir fjárfestar máttu vera?
„Sá listi sem var birtur var birtur yfir öll tilboð sem komu á 117 kr. Í upphafi voru upplýsingar um að 400 aðilar hefðu keypt en það er útaf því að margir aðilar sendu áskriftir sínar gegnum marga söluaðila og það þurfti að þétta bókina og sameina allar pantanir frá hverjum kaupanda,“ sagði Jón Gunnar.
„Á endanum eru 209 sem eru tilbúnir að kaupa og það eru tveir fjárfestar sem eru samkvæmt ráðleggingum okkar sem voru sem kallast á ensku Proprietary Desk hja Kviku og Landsbankanum,“ sagði Jón Gunnar en hér hann við um veltubækur hjá bönkunum tveimur.
„Þannig þið hafnið þessum aðilum því þeir eru að fara taka snúning?“ spurði Kristrún.
„Forsendan er sú að útboð með þessum hætti er ekki beint að slíkum aðilum,“ sagði Jón Gunnar en það var STJ advisors, fjármálaráðgjafi Bankasýslunnar, sem ákvað að hafna þessum fjárfestum.
Kristrún spurði jafnframt hvort Bankasýslunni hafi tekist að tryggja jafnræði meðal tilboðsgjafa og sagði Jón Gunnar svo vera en það sé hins vegar aukaatriði.
„Ég held að við höfum tryggt jafnræði,“ sagði Jón Gunnar og bætti við að forgangsmeginreglan um hagkvæmni trompi jafnræði meðal kaupenda en forgangsmeginreglan í ferlinu er að um að sækja sem hæsta verð fyrir hlut ríkisins.

„Gríðarlega ánægðir með þá verðþróun sem varð á markaði“
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði hvort verðþróun í Kauphöllinni eftir útboðið hefði komið Bankasýslunni á óvart. „Þrátt fyrir mikið magn og fjölgun hluthafa að gengi bréfanna skildi halda áfram að standa í stað og hækka?“
„Þetta kemur inn á þetta stóra mál. Á endanum þurfum við að fara varlega í það ýta söluverðinu á hvern hlut ekki of hátt vegna þess þá geta fallið frá margar pantanir og þá kemur órói í mögulega kaupenda og útboðið getur einfaldlega hrunið,“ sagði Jón Gunnar.
„Það er svo mikilvægt í þessum útboðum að við megum ekki verðleggja útboðið þannig að þróun á eftirmarkaði verði neikvæð. Það er eins og að skjóta sig í fótinn. Við eigum þegar 42% hlut, íslenskur almenningur á þegar stóran hlut í bankanum og það hefði verið afskaplega óábyrgt að teygja okkur lengra og selja stærri hlut á hærra verði sem kannski hefði leitt til þess að margir skammtímafjárfestar eða skuldsettir fjárfestir hefðu þurft að selja hlut sinn í Íslandsbanka til að fjármagna nýja stöðutöku,“ sagði Jón Gunnar.
„Við erum gríðarlega ánægðir með þá verðþróun sem varð á markaði,“ bætti hann við þar sem Bankasýslan vildi ekki raska róinni á hlutabréfum Íslandsbanka. „Það tókst.“
Jón Gunnar bætti við að markaðshreyfingar í tengslum við framkvæmdina hefðu hjálpað útboðinu en á upphaflega stóð til að selja 15% hlut á 5 til 7 prósent fráviki á mánudagsmorgni.
„Við ákváðum svoa að fara út með um 20% hlut í útboðið á 20% hlut og er endaniðurstaðan er að við seljum 22,5% hlut sem er 12,5% meira en við sögðumst ætla gera rúmum fjórum klukkutímum áður og enda niðurstaðan er á 4,1% fráviki og náum í 52 milljarða fyrir ríkissjóð.“
