Hluthafar HB Granda samþykktu á hluthafafundi í gær að breyta nafni félagsins í Brim og kaupa sölufélög Útgerðarfélags Reykjavíkur í Asíu. Kaupverðið verður háð rekstrarhagnaði án fjármagnsliða og afskrifta (EBITDA) hjá sölufélögunum á árunum 2019 og 2020.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá HB Granda en þar segir að nafnbreytingin hafi verið samþykkt með um 90 prósentum atkvæða.

Kaupverð sölufélaganna nemur 34,9 milljónum Bandaríkjadala og greiðist allt með útgáfu nýrra hluta sem verða afhentir við afhendingu félaganna fjögurra. Verði samanlagður rekstrarárangur áranna 2019 og 2020, mælt í EBITDA, undir kynntri rekstraráætlun, sem er samtals 9,2 milljónir Bandaríkjadala, skal seljandi endurgreiða hluta kaupverðs.

„Verði EBITDA undir USD 8,3 m (10% vikmörk frá rekstraráætlun) skal frávik undir USD 8,3 m margfaldað með stuðlinum 7,6 og kemur sú fjárhæð til lækkunar kaupverðs,“ segir í tilkynningunni. Verði EBITDA hærri en USD 9,2 m er kaupverð óbreytt.