HB Grandi hefur breytt nafni sínu og heitir nú Brim. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu en jafnframt nafnabreytingunni breytist merki félagsins. Kennitala félagsins er óbreytt ásamt leyfisnúmeri, heimilisfangi og símanúmeri.

Merkið táknar sjó og fisk

„Brim er einfalt og þjált nafn sem þegar er þekkt á alþjóðamörkuðum fyrir sjávarafurðir. Merkið myndar þrjár öldur. Öldurnar tákna annars vegar brim, sem brýtur nýja leið í viðskiptum og hins vegar mynda þær fisk, sem er tákn fyrir afurðir fyrirtækisins,“ kemur fram í tilkynningunni en þá á blái litur merkisins að tákna sjóinn og sá grái verðmætin sem Brim skapar.