Ólafur Sigurðsson er framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs. Hann er heillaður af Hávamálum Eddukvæða og hefur mikinn áhuga á sagnfræði og að skjótast í golf öðru hvoru.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Sem stendur þá eru það handahófskennd verkefni í garðinum og endurbætur á húsinu. Við hjónin keyptum fyrir nokkrum árum gamalt hús sem við erum í rólegheitum að aðlaga okkar högum. Ætli sagnfræðin flokkist ekki meira undir áhugamál þó ég sitji í stjórn Sögufélags Ísfirðinga sökum brennandi áhuga á sögu. Annars eru íþróttir mitt helsta áhugamál og hafa alltaf verið. Það er fátt sem gleður jafn mikið og vel útfærð svigbeygja og/eða gott snertimark í NFL. Eins finnst mér gaman að skjótast í golf öðru hvoru.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Hávamál Eddukvæða hafa heillað mig lengi. Grein eftir Óttar Norðfjörð kenndi mér að skilja betur hugtakaheim Hávamála og heilræðin hafa reynst mér vel. Af nýlegri bókum þá hafði ég einstaklega gaman af bók Andrew Lo um markaðsaðlögun (e. Adaptive Markets) frá 2017. Hún er bæði hugvekja og skemmtilestur sem ég mæli eindregið með við hvern sem er. Hann tengir þverfaglega saman efni um markaði sem dýpkaði skilning minn mikið á því hvað við eigum í raun mikið eftir að læra um markaði.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin á undanförnum misserum?

Covid-tengd verkefni hafa bæði verið fjölbreytt og mörg hver mjög krefjandi. Það hefur of mikil orka farið til spillis í almennum leiðindum sem fylgdu þessum faraldri sem sér nú ekki alveg fyrir endann á.Hvaða áskoranir eru fram undan?Að ná sátt við haghafa Birtu í mörgum stórum málum sem blasa við okkur. Verðbólgan er farin að minna óþægilega mikið á sig með tilheyrandi áhrifum á samfélagið.

Hvar sérðu þig eftir tíu ár?

Ég hlakka mikið til næstu tíu ára og er frekar bjartsýnn á lífið og tilveruna. Ég er sannfærður um að upplýsingatæknin eigi mikið inni svo ekki sé nú talað um líftæknina og orkuskiptin. Ég er þarna einhvers staðar í sjálfbærri Birtu, í góðu formi að klára Fossavatnsgönguna á Ísafirði rétt rúmlega sextugur að aldri. Ef ég verð ekki hjá Birtu lífeyrissjóði þá verð ég vonandi að vinna fyrir þá sem hafa áhuga á mínum starfskröftum á milli þess sem ég rækta sambandið við fjölskyldu og vini.

Ef þú þyrftir að velja annan starfsframa, hvað yrði fyrir valinu?

Uss, það er svo margt sem hefur heillað mig um ævina að ég á í mestu vandræðum með að velja. Kennsla, sagnfræði og smíði eru starfsgreinar sem ég gæti alveg hugsað mér að sinna, svo ekki sé nú minnst á líftæknina.

Hver er uppáhaldsborgin þín?

Salzburg í Austurríki hvar ég var í námi í sex ár. Ég fór fyrir nokkrum árum þangað í kórferðalag með konunni og hún er klárlega uppáhalds. Þægileg og vinaleg og býður upp á allt sem ég þarf.

Helstu drættir

Nám: Meistaragráða í erfðafræði frá Paris Lodron-háskóla í Salzburg 1996, rekstrar- og viðskiptafræði frá Endurmenntun Háskóla Íslands 2000.

Störf: Birta lífeyrissjóður frá 2016 og hjá forverum þess sjóðs frá 2005. Þar áður hjá Virðingu verðbréfafyrirtæki, Íslandsbanka og Lyfjaverslun Íslands. Setið í fjölmörgum stjórnum og nefndum fyrir hönd vinnuveitanda.

Fjölskylduhagir: Giftur Mörtu Hlín Magnadóttur, á með henni einn son og tvær uppeldisdætur.