Haukur Hafsteinsson, fyrrverandi fram-kvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), hefur tekið sæti í stjórn Íslenskra fjárfesta. Kemur hann nýr í stjórn verðbréfafyrirtækisins í stað Ingunnar A. Kro, fyrrverandi framkvæmdastjóra skrifstofu- og samskiptasviðs Skeljungs, en hún var kjörin í stjórn tryggingafélagsins Sjóvár nú í mars.

Haukur lét af störfum sem framkvæmdastjóri LSR, stærsta lífeyrissjóðs landsins, síðastliðið sumar eftir að hafa stýrt sjóðnum í 34 ár samfleytt. Auk Hauks eru þau Dagný Hrönn Pétursdóttir, sem er jafnframt stjórnarformaður, og Jóhannes Árnason í stjórn verðbréfafyrirtækisins.

Íslenskir fjárfestar fengu starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki árið 2016 og eru í eigu sex starfsmanna félagsins. Hlutdeild Íslenskra fjárfesta í hlutabréfaviðskiptum á Aðalmarkaði Kauphallarinnar í fyrra nam um átta prósent um en í skuldabréfaviðskiptum var hlutdeildin um 12 prósent.

Hagnaður félagsins á árinu 2018 nam tæplega 53 milljónum.