Litlar líkur eru fyrir því að Íslendingar muni veiða loðnu á árinu 2020 að því er fram kemur í fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútveg.

Ótalmörg bæjarfélög um allt land reiða sig á loðnuveiðar og eru verulegar útflutningstekjur í húfi verði engin loðnuveiði. Um er að ræða útflutningsverðmæti upp á 15 til 20 milljarða króna.

Í fyrra varð ekkert um loðnuveiðar og er ljóst að loðnubrestur tvö ár í röð yrði þungt högg fyrir samfélagið.

Slæm staða fyrir mörg sveitarfélög

Bæjarráð Fjarðarbyggðar lýsti yfir þungum áhyggjum af stöðu loðnuleitar á Íslandsmiðlum í bókun sinni í gær og tók bæjarráð Vestmannaeyja undir þær áhyggjur í dag. Skorað er á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að tryggja fjármagn til loðnuleitar og mælinga svo hægt sé að kanna útgáfu veiðiheimilda.

Loðnan er ekki bara fiskur sem við erum að nýta í veiðum, heldur er hún einnig einn mikilvægasti hlekkurinn í fæðukeðjunni í hafinu hér við Íslandsstrendur.

„Bæjarráð Vestmannaeyja telur því í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin varðandi loðnuleit ljóst að bregðast þurfi hratt og örugglega við. Loðnan er einn okkar mikilvægasti nytjastofn og óvissu varðandi veiðar og nýtingu þarf að halda í lágmarki. Mikið liggur við fyrir bæjarfélag eins og Vestmannaeyjar. Loðnubrestur tvö ár í röð yrði þungt högg fyrir samfélagið hér og þjóðarbúið í heild,“ segir í bókun bæjarráðs Vestmannaeyja.

„Stjórnvöld hafa ekki yfir fullnægjandi skipakosti að ráða sem þarf til leitar og þau hyggjast ekki nýta sér aðra kosti í stöðunni, sem þeim þó stendur til boða; það er að semja við aðila um að annast hluta verkefnisins. Slíkt fyrirkomulag er þó vel þekkt. Að óbreyttu eru því ekki líkur á loðnuveiðum í vetur,“ segir í grein sem birtist á vef SFS í gær.

Mikilvægt að rannsaka stofninn í ljósi umhverfisbreytinga

Jens Garðar Helgason, formaður SFS, segir málið ekki einungis snúast um loðnuleit heldur einnig loðnurannsóknir. Atferli loðnunnar hafi breyst mikið á undanförnum árum vegna hækkandi hitastigs sjávar og loftslagbreytinga og sé því mikilvægt að Hafrannsóknastofnun rannsaki ítarlega þessar breytingar á atferli loðnunnar.

„Þetta gæti orðið mikið högg fyrir félögin sem stunda þessar veiðar og sveitarfélög sem reiða sig á loðnuveiðar eins og Langanesbyggð, Vopnafjörður, Fjarðarbyggð, Hornafjörður og Vestmannaeyjar,“ segir Jens Garðar í samtali við Fréttablaðið.

„Umhverfið er að breytast; hitastig í sjó er að hækka og loðnan er mjög viðkvæm fyrir breytingum í hafinu og er að haga sér öðruvísi nú en hún hefur gert síðustu ár og áratugi.“

Aðspurður hvað þurfi að breytast til að koma í veg fyrir mikið tjón segir Jens Garðar þörf á ítarlegri rannsóknum á stofninum og auknum fjármunum. Svo virðist sem Hafrannsóknarstofnun muni einungis hafa eitt skip til að sinna loðnuleit í ár að því er fram kemur í bókun bæjarráðs Vestmannaeyja.

„Í fyrsta lagi, til skemmri tíma, þurfa stjórnvöld að koma inn með aukna fjármuni næstu daga og vikur inn í loðnuleit til þess að hægt sé að fara að leita að loðnunni. Í öðru lagi, til lengri tíma, er gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld auki fjármagn og leggi áherslu á loðnurannsóknir. Það er munur á loðnurannsóknum og loðnuleit. Loðnan er ekki bara fiskur sem við erum að nýta í veiðum, heldur er hún einnig einn mikilvægasti hlekkurinn í fæðukeðjunni í hafinu hér við Íslandsstrendur.“

Jens Garðar segir mikilvægt fyrir Íslendinga að átta sig á stöðunni á loðnustofninum.

„Umhverfið er að breytast; hitastig í sjó er að hækka og loðnan er mjög viðkvæm fyrir breytingum í hafinu og er að haga sér öðruvísi nú en hún hefur gert síðustu ár og áratugi.“

2012: Áhöfnin á Vikingi EA100 HB Granda gerir skipið klárt til að geta haldið á loðnuveiðar.
Fréttablaðið/Anton Brink