Háskóli Íslands hefur til skoðunar að festa kaup á húsnæði Hótel Sögu. Þetta staðfestir Jón Atli Benediktsson, rektor skólans, í samtali við Markaðinn, og nefnir að viðræður standi yfir við menntamálaráðuneytið um kaupin.

Hann segir að horft sé til þess að flytja menntasvið Háskóla Íslands frá Stakkahlíð í bygginguna. Að sama skapi sé til skoðunar að þar verði skrifstofur, tæknideild og stúdentagarðar. Stefnt hafi verið á að flytja menntasvið frá því að Háskóli Íslands sameinaðist Kennaraháskólanum árið 2008.

Ódýrara en að byggja nýtt

Aðspurður segir Jón Atli að það væri ódýrara að festa kaup á Hótel Sögu, að gefnum tilteknum forsendum, en að byggja nýtt húsnæði. Eignin krefjist einhverra endurbóta til að aðlaga hana að skólastarfinu.

Háskólinn er með mikla starfsemi í grennd við Hótel Sögu; fyrirlestrar eru haldnir í Háskólabíói sem stendur á móti hótelinu, Þjóðarbókhlaðan er steinsnar frá og við bókasafnið er verið að byggja Hús íslenskunnar, Tæknigarður er við Dunhaga, VR-II, þar sem meðal annars verkfræði er kennd, er við Hjarðarhaga og Veröld - hús Vigdísar er spölkorn frá hótelinu. Handan við Suðurgötu er nokkur fjöldi bygginga á vegum háskólans, eins og til dæmis Aðalbyggingin, Lögberg og Árnagarður.

Bændasamtökin eiga hótelið

Bændahöllin, félag í eigu Bandasamtaka Íslands sem á umrædda fasteign, og Hótel Saga, félag í eigu samtakanna sem hafði með höndum rekstur hótelsins, eru í greiðsluskjóli. Sú heimild gildir til 7. apríl. Alþingi samþykkti síðastliðið sumar lög um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar til handa fyrirtækjum sem eiga í erfiðleikum sem rekja má til kóróna­veirukreppunnar.

Hótel Saga rekur 236 herbergja hótel undir merkjum Radisson Blu og veitingahúsið Grillið.

Halla tók undan rekstrinum fyrir heimsfaraldurinn því hótelið var rekið með tapi á árunum 2017 til 2019. Tapið var 34 milljónir króna árið 2017, 182 milljónir árið 2018 og 402 milljónir árið 2019.

Heimildir Markaðarins herma að umtalsverður fjöldi, hátt í 20 innlendir sem erlendir, hafi sýnt húsnæðinu áhuga.

Fasteignafélagið skuldaði fjóra milljarða

Bændahöllin skuldaði 3,9 milljarða við árslok 2019, þar af 3,6 milljarða til lánastofnana, einkum Arion banka og hafa skuldirnar hafi vaxið nokkuð frá þeim tíma.