Bílaleigan Happy Campers hagnaðist um 46 milljónir króna árið 2018 og dróst hagnaðurinn saman um fjórðung á milli ára. Arðsemi eiginfjár var 24 prósent og eiginfjárhlutfallið var 45 prósent.

Veltan var 333 milljónir króna í fyrra og dróst saman um tíu prósent. Þetta kemur fram í ársreikningi.

Fram kom í Morgunblaðinu að hjónin Sverrir Þorsteinsson og Herdís Jónsdóttir hafi stofnað fyrirtækið árið 2009. Fyrst um sinn hafi þau farið hægt í sakirnar og keyptu fimm gamla bíla þau breyttu sjálf svo hægt væri að gista og elda mat í þeim.

„Við erum með þrjú tímabil í gangi og eru vor- og haustkúnnar alltaf að verða fleiri og fleiri, þar sem það þykir eftirsóknarvert að heimsækja Ísland á jaðartímum. Það er líka fullkomlega raunhæft að „Camperar“ séu valkostur allt árið um kring eins og aðrir bílaleigubílar eða rútur, ef bílarnir eru vel útbúnir og Vegagerðin heldur vegum opnum. Þarna undanskil ég kannski einstaka óveðurstilfelli,“ sagði Sverrir við Morgunblaðið fyrir einu og hálfu ári.