Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir að það veki furðu hversu lítil gagnrýni sé sett fram á hugmyndir sem nái greinilega ekki nokkurri átt.

„Inga Sæland vill eyðileggja lífeyriskerfið okkar, sem er eitt hið öflugasta í heimi. Gunnar Smári vill „hreinsun“ í dómskerfinu, en aðskilnaður dómsvalds og framkvæmdavalds er einn hornsteinninn í stjórnskipan okkar. Samfylkingin vill stóreignaskatt, sem er samkvæmt gengnum hæstaréttardómum stjórnarskrárbrot nema sem neyðarráðstöfun í skamman tíma. Píratar setja fram eyðsluáætlun og reynast hafa reiknað allt vitlaust,“ segir hann á pistli á Facebook.

Hannes Hólmsteinn segir að umræddir stjórnarmálaflokkar vilji leggja kvótakerfið í rúst, en það sé eitt arðbærasta og sjálfbærasta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi, og breytingar á því myndu stórlega skaða samkeppnisstöðu Íslands á alþjóðamarkaði, þar sem keppinautar fái ríflega ríkisaðstoð.

„Og allir þessir flokkar vilja fjármagna óskir sínar með auknum sköttum af hinum ríku og hyggjast með því endurtaka mistökin, sem Svíar gerðu upp úr 1980, en hurfu síðan frá, því að nýsköpun í einkageiranum hvarf þar vegna ofsköttunar,“ segir hann.