Hallmundur Albertsson er genginn til liðs við eigendahóp Deloitte Legal sem er nýstofnuð alþjóðleg lögmannsstofa. Hann hefur verið sjálfstætt starfandi lögmaður síðastliðin sjö ár en var þar áður yfirlögfræðingur Símans. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Á rúmlega 20 ára ferli sem lögmaður hefur Hallmundur byggt upp sérþekkingu og ber þar helst að nefna samkeppnisrétt og ríkisstyrki, lögfræði sem tengist fjarskiptum, upplýsingatækni og nýsköpun, félagarétt og stjórnarhætti fyrirtækja auk þess að gæta hagsmuna viðskiptavina í ágreiningsmálum fyrir dómstólum og stjórnvöldum.

Hallmundur hefur sótt menntun víða en hann lauk framhaldsnámi í samkeppnisrétti frá King‘s College í London, hefur stundað nám við Cambridge Háskóla á Englandi í upplýsingatæknirétti auk þess að hafa sótt sérhæfð námskeið við gerð verksamninga (FIDIC) og innleiðingu samkeppnisréttaráætlana. Hallmundur er ennfremur viðurkenndur stjórnarmaður frá Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti fyrirtækja við Háskóla Íslands og hefur lokið námi í sáttamiðlun.

„Það er ekki oft sem tækifæri gefst á að starfa í alþjóðlegu umhverfi í lögmennsku á Íslandi en minn bakgrunnur sýnir ef til vill að slíkt starfsumhverfi höfðar til mín, ég stökk því á þetta tækifæri með Deloitte Legal. Ég held að það séu mikil tækifæri fyrir okkur að bjóða íslenskum fyrirtækjum og stofnunum að flétta saman sérfræðiþekkingu á lögfræði við aðra sérhæfingu sem Deloitte á heimsvísu býður, eftir því sem við á. Við munum einbeita okkur að því að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu á Íslandi en þess utan er Deloitte Legal með starfsstöðvar í 80 löndum og þar sem starfa yfir 2.000 lögfræðingar og lögmenn sem nýtist okkar viðskiptavinum. Það er áður óþekkt staða hjá íslenskum lögmannsstofum,“ segir Hallmundur.