Tekjujöfnuður hins opinbera var neikvæður um 254 milljarða króna á árinu 2020 samanborið við rúmlega 46 milljarða halla árið á undan. Frá þessu er greint í Hagsjá Landsbankans. Afkoma ríkissjóðs var verri en hjá sveitarfélögunum eða um -27,2 prósent af tekjum borið saman við -6,8 prósent hjá sveitarfélögunum.

„Samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar versnaði afkoma ríkissjóðs verulega á síðasta ári, fór úr -3,5 prósent af tekjum árið 2019 niður í -27,2 prósent. Afkoma sveitarfélaganna hefur hins vegar breyst minna síðustu þrjú ár, var neikvæð um tæplega 5 prósent af tekjum 2018 og 2019 og neikvæð um 6,8 prósent í fyrra. Tekjur ríkissjóðs á föstu verðlagi drógust saman um 9,6 prósent milli 2019 og 2020 á meðan tekjur sveitarfélaganna jukust um 2,5 prósent milli ára,“ segir í Hagsjánni.

Halli hefur verið á rekstri ríkissjóðs alveg frá upphafi árs 2019 en sveitarfélögin hafa heilt yfir verið rekin með halla lengur en það. Árið 2019 var hallinn á ríkissjóði að meðaltali 3,5 prósent af tekjum en var svo 23,1 prósent á fyrsta ársfjórðungi 2020, 37,5 prósent af tekjum á öðrum, 23,4 prósent á þeim þriðja og 25,5 prósent á þeim fjórða.

Í Hagsjánni segir jafnframt að tekjur ríkissjóðs hafi lækkað um 4,6 prósent á föstu verðlagi á milli áranna 2018 og 2019 og lækkuðu um 9,6 prósent í fyrra. Aftur á móti jukust tekjur sveitarfélaganna milli ára um 2,5 prósent.

„Opinber fjárfesting dróst saman um 3,7 prósent að raunvirði á árinu 2020. Þetta er annað árið í röð sem opinber fjárfesting minnkar, en samdrátturinn var 9,1 prósent á árinu 2019. Opinber fjárfesting var einungis 3,7 prósent af vergri landsframleiðslu í fyrra, en hún hefur að meðaltali verið um 3,9 prósent af VLF frá árinu 2001. Þetta er mun lakari niðurstaða en bæði yfirlýsingar stjórnvalda og samþykktar heimildir hafa gefið kynna,“ segir í Hagsjánni.

Einnig kemur fram að fjármál hins opinbera séu lituð af aðgerðum stjórnvalda til að lágmarka neikvæð áhrif af COVID-19 faraldrinum hér á landi. Til að mynda jukust félagslegar tilfærslur um tæpan þriðjung á árinu 2020.