Þorsteinn Friðrik Halldórsson
tfh@frettabladid.is
Miðvikudagur 22. janúar 2020
06.00 GMT

Við erum ekki lengur tækniþróunarfyrirtæki heldur sölu- og markaðsdrifið fyrirtæki með öfluga vöruþróun. Kerecis er komið með hundruð viðskiptavina, er að verða þekkt nafn á markaði og salan hefur margfaldast milli ára. Ástæðan er öflugt sölu- og markaðsstarf, en ég held að margir íslenskir frumkvöðlar klikki stundum á því. Menn geta fengið góðar hugmyndir en ef þú nærð ekki að selja vöruna er hugmyndin einskis virði. Í okkar tilfelli veðjuðum við öllu á að geta selt vöruna. Langstærstum hluta þess hlutafjár sem við höfum aflað undanfarin ár hefur verið varið í sölu- og markaðsstarf,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis.

Afurð Kerecis er affrumað þorskroð sem inniheldur meðal annars ómega-3 fitusýrur. Roðið hefur jákvæð áhrif á frumuinnvöxt og eru fyrstu vörur félagsins seldar til meðhöndlunar á þrálátum sárum og brunasárum. Kerecis nær að vinna verðmæti fyrir fjögur þúsund Bandaríkjadali, um hálfa milljón króna, úr hverjum þorski að sögn Guðmundar. Meðalverðið fyrir hverja framleidda einingu er um 500 dalir en úr einum þorski má vinna allt að átta einingar.

„Nú gætu allir útgerðarmenn orðið áhugasamir en framleiðsla Kerecis verður alltaf á litlum skala mæld í þorskum og mun ekki hreyfa við verði á þorski úr sjó. Ef við gerum ráð fyrir 25 milljónum dala í tekjur og 500 dölum í meðalverð fyrir hverja einingu þá þurfum við að selja 50 þúsund einingar á ári. Það eru ekki nema 6.250 þorskar sem eru ekki nema nokkur kör af þorski.“

Guðmundur er efnafræðingur og rekstrarverkfræðingur að mennt en áhuginn á meðhöndlun sára kviknaði þegar hann starfaði hjá stoðtækjaframleiðandanum Össuri um síðustu aldamót. Þar áttaði hann sig á mikilvægi þess að koma í veg fyrir aflimanir.

„Aflimun er oft sýnd sem afleiðing af slysi eða hernaði, en raunin er sú að hana má í langflestum tilvikum rekja til sykursýki. Þegar fólk fær sykursýki þá deyja háræðarnar í fótunum og í kjölfarið deyja taugarnar og öll tilfinning hverfur úr fótunum. Þegar þessir sjúklingarnir fá svo skrámu á fæturna, til dæmis eftir að hafa verið með steinvölu í skónum, getur myndast sár. Í sumum tilfellum stækkar sárið og stækkar og verður lífshættulegt ef það nær inn að beini,“ segir Guðmundur og nefnir að um 1,2 milljónir Bandaríkjamanna sem séu nú á lífi hafi verið aflimaðir og margir hverjir orðið viðskiptavinir Össurar. Lífslíkur þeirra sem eru aflimaðir eru slæmar eða svipaðar og hjá þeim sem glíma við lungnakrabbamein.

„Þetta er mjög alvarlegt vandamál. Í Bandaríkjunum í dag eru 30 milljónir manna með sykursýki, eða einn af hverjum ellefu. Gert er ráð fyrir að árið 2050 verði hlutfallið komið upp í einn af hverjum þremur fullorðnum. Við sjáum sömu þróun í Evrópu og Asíu þó að hún sé aðeins seinna á ferðinni en í Bandaríkjunum. Þetta er stórt vandamál og mikill harmleikur fyrir fjölskyldur sjúklinganna. Þeir sem eru aflimaðir eru oft mjög veikir fyrir, og við aflimunina versnar ástandið enn frekar. Sjúklingarnir festast inni á heimilum sínum og sjúkrastofnunum, hætta að taka þátt í samfélaginu og einangrast.“

Eldskírn í dotcom-bólunni

Guðmundur hóf feril sinn sem frumkvöðull í Danmörku á meðan hann var þar í námi og að námi loknu. Hann rak þar tölvufyrirtæki um skeið sem sérhæfði sig í lausnum fyrir rannsóknardeildir fjárfestingabanka. „Það var mikilvægur skóli að reka tölvufyrirtæki á þessu svokallaða dotcom-tímabili þegar allt snérist um að vera með sem flesta starfsmenn og afkoma skipti engu. Svo breyttust hlutirnir allt í einu þegar dotcom-blaðran sprakk og öll þessi nýju fyrirtæki áttu að verða arðbær á einni nóttu sem var auðvitað mjög erfitt.

Ég lærði mikið á þessari eldskírn og held að þessi reynsla gagnist mér afskaplega vel í dag í mörgum ákvarðanatökum. Þegar ævintýrinu í Danmörku lauk hóf ég störf hjá Össuri þar sem ég hafði starfað nokkrum árum áður í sumarvinnu. Hjá Össuri var umhverfið allt annað. Mikil festa í öllum rekstri en á sama tíma mikil áhersla á vöruþróun og nýsköpun,“ segir Guðmundur.

Eftir að hafa starfað hjá Össuri réð Guðmundur sig til sárafyrirtækis á Nýja-Sjálandi en sneri síðan heim til Íslands árið 2007 og starfaði um skeið sem rekstrarráðgjafi. Hann saknaði hins vegar lækningavörugeirans og leitaði kerfisbundið að nýjum hugmyndum til að hrinda í framkvæmd.

Gudmundur Fertram Sigurjonsson 8 (Kerecis).jpg

„Ég vann sem strákur í fiski þar sem maður var að handleika roð og í störfum mínum hjá Össuri og nýsjálenska fyrirtækinu hafði ég kynnst notkun á líkhúð í sárameðhöndlun. Þegar ég kom heim frá Nýja-Sjálandi var ég kerfisbundið að leita að tækifærum til nýsköpunar og tengi þá þetta tvennt saman og ég átta mig á því að það er alveg eins að snerta þorskroð og líkhúð. Hvort tveggja er með sama teygjanleika og sömu þykkt.

„Það var mikilvægur skóli að reka tölvufyrirtæki á þessu svokallaða dotcom-tímabili þegar allt snérist um að vera með sem flesta starfsmenn og afkoma skipti engu.“

Seinna kom svo í ljós að efnasamsetning mannshúðar og roðs er því sem næst eins og er meginmunurinn sá, að þorskroð er þakið hreistri, en mannshúð hárum. Ýmis vandamál hefðu hins vegar getað komið upp við notkun roðsins, eins og sjálfsónæmi. Það er ekki bara áferðin á efninu sem skiptir máli heldur hvaða áhrif efnið hefur á opið blæðandi sár,“ segir Guðmundur.

„Ég leitaði þá til Baldurs Tuma Baldurssonar húðlæknis og Hilmars Kjartanssonar bráðalæknis sem voru fyrrverandi vinnufélagar mínir frá Össuri og nýsjálenska fyrirtækinu. Við réðumst í frekari rannsóknir og fengum jákvæðar niðurstöður. Baldur Tumi og Hilmar eru enn þá lykilmenn í Kerecis og starfa hjá fyrirtækinu í fullri vinnu og hafa að mestu sagt skilið við læknisstörf,“ segir Guðmundur. Að fyrstu skrefunum komu einnig faðir hans Sigurjón N. Ólafsson, efnafræðikennari í háskólanum, Ernest Kenney, einkaleyfalögfræðingur Össurar, og lögmaðurinn Baldvin Björn Haraldsson.

„Við fengum í upphafi aðgang að rannsóknarstofu á Ísafirði þar sem Dóra Hlín Gísladóttir, fyrsti starfsmaður fyrirtækisins, var ráðin. Fyrstu árin fóru í rannsóknir og þróun enda þarf að uppfylla strangar kröfur áður en hægt er að koma lækningavöru á markað.“

Hvernig gekk að finna fjármagn?

„Stjórnvöld brugðust við efnahagsáföllunum árið 2008 af afskaplega framsýnum máta, með því að auka stórlega framlög til nýsköpunar. Þetta var meðal annars gert með því að margfalda framlög í Tækniþróunarsjóð, en styrkur frá honum í upphafi starfsemi Kerecis hafði úrslitaáhrif fyrir okkur. Með fjármagni frá upphafsstyrkjum framkvæmdum við fyrstu rannsóknirnar okkar sem sýndu að meðhöndlað roð virkar stórvel í mannssárum. Niðurstöður þessara rannsókna urðu svo til þess að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfesti í fyrirtækinu árið 2011 og í kjölfarið komu einkafjárfestarnir. Þá vorum við búin að fjármagna ferlið til að fá markaðsleyfi hjá evrópskum og bandarískum lyfjayfirvöldum (FDA) en það tók um 3-4 ár,“ segir Guðmundur.

Á meðal fyrstu einkafjárfestanna í Kerecis voru Hraðfrystihúsið-Gunnvör og fiskþurrkunarfyrirtækið Klofningur sem bæði eru á Vestfjörðum. Fjárfestingafélag á vegum Björgólfs Thors Björgólfssonar, Sigurbjörn Þorkelsson, Haraldur Jónsson og Marinó Marinósson komu einnig snemma inn í félagið.

Reyndi á aðlögunarhæfni

Árið 2013 hafnaði FDA umsókn Kerecis og fór fram á frekari rannsóknir á öryggi vörunnar. Þá var flestum starfsmönnum Kerecis sagt upp og allur peningur sem var þá eftir í kassanum notaður til þess að framkvæma þær rannsóknir sem FDA krafðist. „Á þessum tíma reyndi talsvert á mig persónulega og á aðlögunarhæfni fjölskyldu minnar,“ segir Guðmundur.

„Við fluttum skrifstofuna inn í stofu hjá mér og ég vatt mér aftur í rekstrarráðgjafarstörf. Við Fanney konan mín erum afskaplega samhent og hún á stóran hlut í þessu verkefni og hefur verið mikilvægur þátttakandi í öllum stórum ákvörðunum um félagið. Kerecis fékk markaðsleyfi frá FDA árið 2015 og um tíma vorum við með vísi að starfsemi í Evrópu og í Bandaríkjunum, auk rekstrarins á Ísafirði og í Reykjavík.

25mynf99240715_vestfj_08.jpg

Við sáum fljótt að þetta var of mikið fyrir lítið startup-fyrirtæki og í kjölfarið ákváðum við að skipta starfseminni upp og vera með höfuðstöðvar fyrir sölu- og markaðsstarf í Bandaríkjunum, rannsóknir og þróun í Reykjavík og framleiðslu á Ísafirði. Við ­Fanney tókum svo ákvörðun 2017 um að flytja til Bandaríkjanna þar sem mikilvægasti hluti rekstrarins er og höfum verið þar síðan en dvalið á sumrin á Ísafirði.“

Meiri ábati í Bandaríkjunum

Guðmundur segir að uppfinning án tekjumódels sé lítils virði. „Í Bandaríkjunum eru það tryggingafélögin sem ráða öllu um það hvort greitt sé fyrir notkun spítala á lækningavörum eða ekki. Þegar FDA-markaðsleyfið lá fyrir fórum við strax í þá vinnu að koma vörum Kerecis inn í Medicare, sem er tryggingafélag í eigu bandaríska ríkisins og tryggir alla Bandaríkjamanna sem eru eldri en 65 ára. Það kom fljótt í ljós að þarna voru gríðarleg tækifæri,“ segir Guðmundur. Skráning sára­roðs Kerecis hjá Medicare var þannig risastór stökkpallur fyrir Kerecis. Fyrir skráninguna höfðu tekjur Kerecis verið sáralitlar en síðan þá hafa þær tvöfaldast og jafnvel þrefaldast á hverju ári.

Bein sala Kerecis í Bandaríkjunum á þriðja ársfjórðungi 2019 var sexfalt meiri en á sama tímabili árið 2018. Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri nam salan í Bandaríkjunum samtals 8 milljónum dala á fjárhagsárinu 2019 sem lauk í septemberlok og yfir 10 milljónum dala á almanaksárinu.

kortið.JPG

Eruð þið að einblína á Bandaríkjamarkað?

„Sykursýki er miklu stærra vandamál í Bandaríkjunum en í Evrópu eins og staðan er í dag og bandaríska kerfið er meira peningadrifið. Þegar stjórnvöld sjá aukningu á sjúkdómum eins og sykursýki, þá eru viðbrögðin þau að setja meiri pening í endurgreiðslur á því sviði til að fjármagna betri meðhöndlun. Fyrir vörur með öfluga virkni eru greiðsluleiðirnar í Bandaríkjunum mun ábatasamari en greiðsluleiðir í Evrópu. Við erum með mjög góðar vísindalegar sannanir fyrir virkni sáraroðsins sem leiðir til þess að varan er greidd af Medicare þrátt fyrir að vera tiltölulega dýr. Í Evrópu er kerfinu ekki stjórnað með sama máta og er erfitt fyrir sjúkrastofnanir að kaupa dýrari vörur,“ segir Guðmundur en vara Kerecis er greidd af Medicare í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna.

Þríþættur vöxtur

Kerecis lauk fjármögnun fyrir sextán milljónir Bandaríkjadala á síðasta ári sem að stærstum hluta er varið í uppbyggingu á sölu- og markaðsstarfi félagsins og þá aðallega í Bandaríkjunum. Félagið seldi þá nýtt hlutafé til núverandi hluthafa og nýrra fyrir um 1.250 milljónir og auk þess var kröfum skuldbreytt í hlutafé að upphæð um 750 milljónir. Félagið vinnur ötullega að því að fjölga sölumönnum þannig að sölunet fyrirtækisins nái til allra stærstu svæða Bandaríkjanna en til þess þarf hátt í 200 sölumenn. Áætlanir Kerecis gera ráð fyrir því að þar verði fyrirtækið komið með 180 sölumenn árið 2022. Þeir eru nú um 40 talsins.

Miðað við almenna gengið í hlutafjárhækkuninni, um 2.000 krónur á hlut, gæti virði félagsins verið allt að 12,4 milljarðar króna. Fjárfestingafyrirtækið Emerson Collective, sem er í eigu Laurene Powell Jobs, ekkju Steve Jobs stofnanda Apple, er einn þeirra fjárfesta sem bæst hafa í hópinn, fyrst sem lánveitandi árið 2018 og svo árið 2019 sem hluthafi þegar fyrirtækið breytti lánum í hlutafé ásamt því að leggja inn nýtt hlutafé. Emerson Collective er núna einn af stærstu hluthöfum félagsins.

„Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti lýðveldisins, lék lykilhlutverk í að koma á tengslum milli Kerecis og Emerson Collect­ive en hann kom á tengslum milli fyrirtækjanna á Artic Circle ráðstefnunni árið 2018. Ólafur var svo kjörinn í stjórn Kerecis sem fulltrúi Laurene síðasta haust en víðtækt tengslanet Ólafs er fyrirtækinu afskaplega mikilvægt,“ segir Guðmundur.

„Ég er ekki viss um að allir átti sig á því hversu stórt nafn Ólafur Ragnar er á heimsvísu og hversu víðtæku tengslaneti hann býr yfir. Áhrifafólk um allan heim leitar til hans. Tengsl Ólafs munu nýtast okkur mjög vel til dæmis í nýmarkaðslöndum þar sem Kerecis mun leggja aukna áherslu á markaðssetningu á næstu árum.“

Stjórnendur Kerecis áætla að tekjur félagsins á þessu fjárhagsári, sem hófst 1. október síðastliðinn, nemi allt að þremur milljörðum íslenskra króna, og allt að þrefaldist frá fyrra ári.

Hvernig náið þið svona miklum vexti?

„Það má segja að við munum vaxa á þrenns konar máta. Í fyrsta lagi eru líffræðilegar lækningavörur fyrir sár að stækka um 25 prósent á ári meðal annars vegna aukinnar tíðni sykursýki. Við erum með mjög góðar vísindalegar sannanir fyrir virkni sáraroðsins og erum þar af leiðandi í lykilstöðu til að ná til okkar hluta af þessum mikla vexti. Í öðru lagi eigum við eftir að sækja inn á fjölmörg markaðssvæði og í þriðja lagi erum við að þróa nýjar vörur sem skila hærri framlegð.

Guðmundur og Ólafur Ragnar.
Fréttablaðið/Valli

Við stefnum á að setja á markað vörur fyrir munnhol, höfuðmeiðsl, skurðaðgerðir og lýtalækningar. En þessar vörur eru með hærri þröskuld hjá FDA. Það tekur lengri tíma og meira fjármagn að fá þær samþykktar og þess vegna er framlegðin hærri,“ segir Guðmundur.

Bíða færis á yfirtökum

Kerecis horfir til þess að styðja mögulega við vöxt Kerecis með svipuðum hætti og stoðtækjaframleiðandinn Össur sem fjármagnaði yfirtökur á fjölda fyrirtækja í Bandaríkjunum í kjölfar skráningar á hlutabréfamarkað um síðustu aldamót.

Fyrsta skrefið var tekið í byrjun árs 2019 þegar gengið var frá kaupum á svissneska sáraumbúðafyrirtækinu Phytoceuticals. Markaðurinn greindi síðan frá því síðasta sumar að Kerecis hefði verið í undirbúningsferli hjá Kauphöllinni varðandi mögulega skráningu félagsins á hlutabréfamarkað.

Er verið að horfa til þess að skrá fyrirtækið á næstu misserum?

„Við erum með mjög sterkan fjárfestahóp á bak við okkur í dag og höfum gott aðgengi að fjármagni frá þessum hópi. Hins vegar gæti komið upp sú staða að við myndum finna fyrirtæki til að kaupa og þyrftum að sækja talsvert fjármagn. Þá gæti hentað að skrá félagið og ná í fjármuni hjá stofnanafjárfestum eins og Össur gerði á sínum tíma.

„Það eru tvær ástæður fyrir því að skrá fyrirtæki. Ein er sú að gefa hluthöfum kost á því að komast út og önnur að gefa fjárfestinum kost á því að komast inn. Eins og staðan er í dag er engin pressa frá hluthöfum á að komast út úr fyrirtækinu. Það verður svo að koma í ljós á næstu misserum hvort við finnum réttu tækifærin og skráum félagið,“ segir Guðmundur og bætir við að Kerecis sé í raun rekið eins og skráð félag í dag hvað varðar upplýsingagjöf og uppgjör. Innviðirnir séu því til staðar.

Reynslu vantar í nýsköpun

Guðmundur er einn af tíu frumkvöðlum sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir nýsköpunarráðherra skipaði til setu í nýrri hugveitu sem var komið á fót í tengslum við umfangsmiklar breytingar á nýsköpunarumhverfinu á Íslandi.

„Það er gróska í nýsköpun á Íslandi en hún einkennist af hugmyndum sem spretta upp hjá ungu fólki í háskólaumhverfinu. Aftur á móti er ekki mikið um það á Íslandi að fólk sem býr að reynslu úr ákveðnum atvinnugeirum gerist frumkvöðlar. Þegar ég sæki nýsköpunarviðburði á Íslandi sé ég mikið af ungu fólki með eldhug en án djúprar reynslu og þekkingar úr ákveðnum starfsgreinum. Á þessu eru undantekningar en þegar ég sæki nýsköpunarviðburði erlendis er staðan önnur og meðalaldurinn virðist vel yfir 40 árum,“ segir Guðmundur.

„Viðhorfið á Íslandi hefur verið dálítið þannig að fólk eigi að fórna öllu fjölskyldulífi fyrir nýsköpun. Við verðum að hverfa frá þessari hugsun.“

„Við erum ekki að sjá nógu mikið af fólki með reynslu úr atvinnulífinu í nýsköpun á Íslandi. Ég held að meginviðfangsefni þessarar hugveitu snúist um það hvernig hægt sé að styrkja nýsköpunarumhverfið þannig að það verði meira aðlaðandi fyrir reynslumikið fólk að fást við nýsköpun. Viðhorfið á Íslandi hefur verið dálítið þannig að fólk eigi að fórna öllu fjölskyldulífi fyrir nýsköpun. Við verðum að hverfa frá þessari hugsun,“ segir Guðmundur.

Var reynsla úr atvinnulífinu lykilþáttur í árangri Kerecis?

„Já, árangur Kerecis felst ekki einungis í því að hugmyndin sé góð. Meginástæðan fyrir því að okkur hefur gengið svona vel er sú að við vorum með teymi sem hafði djúpa þekkingu á öllu því sem þurfti til að keyra verkefni áfram. Fjárfestar vilja sjá teymi sem hefur ekki bara eina hugmynd, heldur reynslu í því að koma hugmynd í framkvæmd og á markað.

Í okkar tilfelli snýst þetta um þekkingu á einkaleyfum, fjármögnun, klínískum rannsóknum, dreifileiðum og þeim áhættum sem fyrirtækið stendur frammi fyrir. Það eru teymin sem ná árangri. Öll verkefni þar sem stofnendur einblína á eina hugmynd og tækniþekkingu en vanrækja allt hitt eru dæmd til að mistakast,“ segir Guðmundur.

Stærð styrkja skiptir máli

Samkvæmt tillögum nýsköpunarráðherra er áformuð stofnun frumkvöðlasjóðs sem mun hafa 2,5 milljarða króna til ráðstöfunar. Sjóðurinn mun bera nafnið Kría og verður hann meðfjárfestir í öðrum íslenskum frumkvöðlasjóðum og er markmiðið að auka heildarfjármagn sem er í umferð í nýsköpun á Íslandi.

Frumkvöðlasjóðir eru sérhæfðir fjárfestingasjóðir sem stýrt er af aðilum með reynslu og þekkingu af sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Slíkir sjóðir eru frumfjárfestar í nýsköpunarfyrirtækjum og koma oft inn í fyrirtæki kjölfar árangursríkrar verkefna sem fjármögnuð hafa verið m.a. með styrkjum.

„Ef styrkirnir eru margir og litlir þá nærðu að jafnaði til yngra og reynsluminna fólks.“

Spurður um fjármögnunarumhverfið á Íslandi segir Guðmundur að skortur hafi verið á bæði fjármagni og nýsköpunarverkefnum þar sem öflug teymi standa að baki. Hvað fjármögnun varðar séu tillögurnar afskaplega jákvæðar og að með auknu fjármagni í umferð sé líklegra að öflug teymi úr atvinnulífinu freistist til að láta drauma um vöruþróun og nýsköpun rætast. Hann nefnir einnig að Tækniþróunarsjóður hafi hækkað styrki sína talsvert undanfarin ár sem sé mikilvægt skref til þess að ná til aðila úr atvinnulífinu.

„Það er miklu betra að vera með fáa og háa styrki heldur en marga og litla vegna þess að ef styrkirnir eru margir og litlir þá nærðu að jafnaði til yngra og reynsluminna fólks. Ef styrkir eru færri og stærri þá næst frekar til aðila sem búa að þekkingu og raunhæfum hugmyndum,“ segir Guðmundur. Þá bendir hann á að Ísland sé með fæst skráð einkaleyfi af öllum OECD-löndunum sem bendi til þess að nýsköpun sé ekki nógu mikil hér.

„Þó að við séum að standa okkur vel á sumum sviðum, eins og stoðtækjum og vinnslutækni, þá ætti að vera mun meiri nýsköpun á Íslandi. Það er líka nauðsynlegt til þess að halda uppi lífskjörum til lengri tíma.“

Þorskroð virkar betur en spendýrahúð

Framleiðsla Kerecis felst í að ná þorskfrumum út úr þorskroðinu án þess að sundra sjálfu roðinu. Það inniheldur sömu efni og mannshúðin. Roðið er síðan dauðhreinsað og grætt á sár sjúklingins. Þá skríða frumur mannslíkamans inn í holrúmið sem þorskfrumurnar skildu eftir sig.

„Ef við fjarlægjum ekki þorskfrumurnar úr roðinu, fær sjúklingurinn sterk of- og ónæmisviðbrögð. Þetta er vegna þess að hvítu blóðfrumurnar skynja þá ókunnugt DNA og ráðast á aðskotaefnið. Ástæða þess að þorskroð virkar betur en efni úr spendýrum er vegna smithættu,“ segir Guðmundur.

Kerecis framleiðsla.jpg

„Það er lítil vírussmithætta milli kaldvatnsfiska og manna. Kerecis notar því ekki sterk kemísk efni til að hreinsa roðið. Ef efni úr spendýrum er hins vegar notað er til staðar mikil vírussmithætta. Vírussmithættan veldur því að það þarf að hreinsa spendýraefnin með sterkum kemískum efnum sem leysa þau upp og sundra. Frumuinnvöxtur er talsvert meiri inn í náttúrlegt sáraroð en uppleyst og sundrað efni úr spendýrum.“

Athugasemdir