Mikilvægt er að íslensk fyrirtæki sæki alþjóðlega styrki til vöruþróunar þegar heimshagkerfið er í frosti. Þeir geta verið býsna háir. Þetta segir Anna Margrét Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Evris. Kreppur leiði oft til þess að nýsköpun fari á flug.

„Með skipulögðum aðgerðum geta íslensk fyrirtæki sem eru með góða vöru og öflugt teymi hent út neti á þrjá feikilega stóra alþjóðlega nýsköpunarsjóði. Þeir eru á vegum Evrópusambandsins, og stjórnvalda í Bretlandi og Bandaríkjunum. Í stað þess að fyrirtæki sem leggja stund á vöruþróun skeri niður á þessum erfiðu tímum og segi upp starfsfólki er rétt að snúa vörn í sókn og nýta alþjóðlega styrki til þess að efla nýsköpun hér á landi í kreppunni,“ segir hún og bætir við að sumt af því sem fyrirtæki séu að þróa eigi betur heima í evrópska styrkjakerfinu á meðan annað eigi heima í því breska eða bandaríska. Stofnanir í samstarfi við nýsköpunarfyrirtæki geta einnig sótt um erlenda styrki til vöruþróunar.

Sóttu 1,5 milljarða í styrki í fyrra

Evris aðstoðar fyrirtæki og stofnanir við að afla styrkja til vöruþróunar frá Evrópusambandinu, Bandaríkjunum og Bretlandi. Evris er umboðsaðili alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins Inspiralia Group á Norðurlöndum sem vinnur umsóknirnar. „Við höfum aðstoðað við að afla stærsta hluta alþjóðlegra nýsköpunarstyrkja sem hingað hafa borist á undanförnum árum,“ segir Anna Margrét. Í fyrra aðstoðaði Evris við að afla styrkja fyrir 1,5 milljarða króna sem er svipuð fjárhæð og árin á undan.

Anna Margrét segir að nýsköpun-arfyrirtæki geti sótt um styrki, allt að 3,5 milljónum evra, til Evrópusambandsins. Kerecis hafi til að mynda á síðasta ári fengið þriggja milljóna evra styrk eða jafnvirði 470 milljóna króna, OZ 2,5 milljónir evra í styrk og Saga Natura 1,5 milljónir evra.

Bretar bæta í

Við útgöngu Bretlands úr ESB lagði breska ríkisstjórnin mikið fé í tækniþróunarsjóð í því skyni að auka nýsköpun í landinu. Öll fyrirtæki sem reka útibú í Bretlandi geta sótt um styrk. „Býsna mörg íslensk fyrirtæki reka útibú þar í landi. Eins eru mörg fyrirtæki áhugasöm um að stofna útibú í Bretlandi til að afla styrkjanna,“ segir hún.

„Við erum dæmis að vinna með Eyri Ventures að því að opna dyr fyrir sprota í þeirra eignasafni í bandaríska samkeppnissjóði,“ segir Anna Margrét. Örn Valdimarsson er framkvæmdastjóri Eyris Ventures og Þórður Magnússon stjórnarformaður.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Til að sækja um nýsköpunarstyrki í Bandaríkjunum verða fyrirtækin að vera staðsett þar í landi og í meirihlutaeigu Bandaríkjamanna eða einstaklinga með græna kortið. „Við erum dæmis að vinna með Eyri Ventures að því að opna dyr fyrir sprota í þeirra eignasafni í bandaríska samkeppnissjóði, sambærilega þeim sem sóttir hafa verið til Evrópu með góðum árangri. Mörg fyrirtæki í eignasafninu þeirra eiga fullt erindi í að sækja í þessa sjóði og þar sem einn stjórnarmanna í Eyri Ventures er búsettur þar vestra og með græna kortið er þetta tiltölulega greið leið og mjög skynsöm.“

Fyrirtækin sem Evris vinnur yfir-leitt með eru komin með frumgerð í hendur. „Á skalanum núll til níu; núll væri hugmynd í háskóla og níu fyrirtæki sem væri reiðubúið að hefja sókn á alþjóðlega markaði, þá vinnum við yfirleitt með þeim sem eru fimm á þessum skala. Þau eru enn að þróa vöruna, þurfa að skala upp, sækja um einkaleyfi, undirbúa alþjóðlega markaðssetningu og fleira. Það getur verið afar kostnaðarsamt. Mörg fyrirtæki ná ekki lengra upp á þennan mælikvarða en í fimm eða sex því brekkan er svo mikil. Þess vegna hafa stjórnvöld víða um heim lagt mikið fé í að aðstoða fyrirtækin við að ná árangri.“

Spurð hvaða líkur séu á að fá styrk segir hún um fjórðung fyrir-tækja sem Evris hafi unnið með hafi hlotið styrk. „Góður árangur skýrist meðal annars af því að við veljum vandlega með hvaða fyrirtækjum við vinnum með tilliti til þess hve líklegt er að þau hljóti styrk,“ segir Anna Margrét.

Björgunarpakkinn fari líka í sóknarstyrki

„Það er almennt viðurkennt að það krefst mikillar sérfræðivinnu að sækja um erlenda nýsköpunarstyrki,“ segir Anna Margrét. „Rannís hefur í nokkur ár boðið svokallaða sóknarstyrki. Það eru styrkir til að fjármagna vinnuna við að sækja um stærri styrki til Evrópusambandsins. Þeir eru frekar lágir og þeim er einungis útdeilt einu sinni á ári. Á hinum Norðurlöndunum eru sóknarstyrkir mun hærri og þeim er útdeilt þrisvar til fjórum sinnum á ári. Það væri æskilegt ef íslensk stjórnvöld myndu horfa til hinna Norðurlandanna hvað þetta varðar. Það væri til dæmis skynsamlegt að verja hluta af björgunarpakka ríkisstjórnarinnar til þess að auka sóknarstyrki til fyrirtækja sem vilja sækja um erlenda styrki og styðja þannig vegferð íslenskrar nýsköpunar á alþjóðlega markaði. Það stendur eðlilega oft í sprotafyrirtækjum sem hafa lítið fé á milli handanna að kaupa þjónustu eins og okkar.“